132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Hreyfanleiki starfsfólks og þjónustu eftir stækkun ESB.

[10:49]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Velferðarþjóðfélög Vestur-Evrópu hafa um áratugi verið í mikilli þörf fyrir erlent verkafólk til þess að vinna við störf sem landsmenn á hverjum tíma hafa ekki talið nægilega eftirsóknarverð vegna lágra launa eða erfiðra starfsskilyrða. Þessi þróun hófst mun fyrr í ríkjum Vestur-Evrópu en hérlendis. Þrátt fyrir að við höfum verið með samnorrænan vinnumarkað og síðan frjálsa för launafólks innan EES-svæðisins hefur verið þörf á verkafólki til vinnu á Íslandi umfram það frelsi í áratugi.

Hins vegar hefur þurft að sækja fyrir fram um atvinnuleyfi og að beiðni atvinnurekenda um leyfi fyrir vinnuafl fyrir fólk sem kemur utan þessara svæða. Við stækkun Evrópusambandsins 2004 settum við takmörk á frjálsa för launafólks frá nýjum aðildarríkjum ESB sem gildir til vors 2006. Í ljósi þjónustusamninga og nýrrar starfsemi starfsmannaleigna, sem virðast sniðganga m.a. lögbundnar greiðslur og umsamin lágmarkslaun hér á landi, er ástæða til þess að endurskoða málin.

Þessi mál eru auðvitað þess eðlis að það þarf að reyna að svara eftirspurn fyrir þörf á vinnuafli á hverjum tíma og við því þurfum við að bregðast. Ég tel að samþykki Alþingis um takmörkun á frjálsri för launafólks í tvö ár frá nýjum svæðum Evrópusambandsins hafi verið rétt og að við þurfum ávallt að sjá til þess að fólk sem hingað kemur geti lifað hér mannsæmandi lífi og hafi hér eðlileg og sjálfsögð starfsskilyrði. Ég tel hins vegar í ljósi reynslunnar ekki sjálfgefið að við tökum okkur aftur það vald hér í Alþingi að takmarka frjálsa för launafólks frá Evrópusambandinu.