132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2004.

[12:04]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Ég vona að formaður allsherjarnefndar finnist áður en umræðunni lýkur, en ég vil byrja á að segja að það er alltaf ákveðið gleðiefni þegar skýrsla umboðsmanns Alþingis kemur út. Ég vil óska umboðsmanni Alþingis og starfsfólki hans innilega til hamingju með þessa góðu og efnismiklu skýrslu, hún er svo sannarlega nauðsynleg fyrir okkur hér á þingi sem erum í eftirlitshlutverki gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Það er alveg ljóst, og ég held að allir séu sammála um það, að umboðsmaður Alþingis er gríðarlega mikilvægt úrræði í okkar réttarríki, ef svo mætti segja, og í okkar réttaröryggi. Þetta er embætti sem hefur tekist mjög vel, þetta er embætti sem nýtur óskoraðs trausts nánast allra aðila og stofnana í samfélaginu og þetta er embætti sem sinnir hlutverki sínu afskaplega vel. Það er mjög mikilvægt fyrir stjórnsýsluna og framkvæmdarvaldið að átta sig á því að stjórnsýslan er fyrir borgarana en ekki öfugt. Þetta regluverk umboðsmanns Alþingis lýtur að því að auka hér réttaröryggi, réttaröryggi í þágu borgaranna. Það er einnig mikilvægt að hafa í huga að hér á landi eru ekki einungis til skráðar stjórnsýslureglur heldur einnig óskráðar. Þegar stjórnsýslulögin voru sett á sínum tíma var ákveðið að hafa þau skýr og einföld, en það hefur í för með sér að ýmislegt þarf að túlka og þar gegnir embætti umboðsmanns Alþingis lykilhlutverki, í því að túlka hinar óskráðu og að sjálfsögðu hinar skráðu stjórnsýslureglur.

Við sjáum í þessari skýrslu að árið 2004 voru 323 ný mál skráð og 279 fengu lokaafgreiðslu en heildarfjöldi mála hefur tvöfaldast frá árinu 1990 og eflaust eru ýmsar skýringar á því. Það er hins vegar umhugsunarvert að á síðasta ári, 2004, voru einungis fjögur frumkvæðismál en þau voru sex árið á undan. Á síðasta ári lauk umboðsmaður Alþingis þremur svokölluðum frumkvæðismálum, sem eru mál sem hann tekur upp að eigin frumkvæði. Af þessum tölum sjáum við að frumkvæðismálin eru einungis um 1% allra mála hjá umboðsmanni Alþingis og það vekur eftirtekt hversu fá þau eru. Það skýrist að sjálfsögðu af skorti á peningum og mannafla að mínu mati.

Þetta úrræði umboðsmanns Alþingis er gríðarlega mikilvægt og við eigum að efla getu embættisins til þess að taka hér upp mál að eigin frumkvæði. En til þess þarf peninga og við sjáum að í fjárlagafrumvarpinu, sem nú liggur fyrir Alþingi, er einungis gert ráð fyrir einni milljón í að auka getu embættisins til frumkvæðisathugunar. Að mínu mati mætti gera betur, því miður eru næg verkefni fyrir embættið hvað þetta varðar.

Það er reyndar mjög ánægjulegt að sjá að tvö frumkvæðismál umboðsmanns Alþingis, sem eru til umfjöllunar hjá embættinu, lúta að föngum. Annað málið lýtur að greiðslu launa til fanga fyrir vinnu innan fangelsanna og réttindum tengdum þeim og hitt lýtur að aðgengi fanga að síma og möguleikum þeirra til að hafa símasamband við aðila utan fangelsisins. Þetta er gríðarlega mikilvægt mál og við í allsherjarnefnd höfum haft mikinn áhuga á fangelsismálum og þeirri stöðu sem fangar hafa, ekki síst samskiptum þeirra við sína nánustu. Í núverandi kerfi virðast vera margar brotalamir hvað það varðar. Við settum ný lög um fangelsi og umboðsmaður Alþingis hefur nú óskað eftir viðhorfi dómsmálaráðuneytisins til að sjá hvaða þýðingu ákvæði hinna nýju laga hafi um þessi álitaefni.

Umboðsmaður Alþingis hefur einnig skoðað mörk skatta og þjónustugjalda nokkuð ítarlega og er það vel. Hann mun ljúka þeirri skoðun sinni mjög fljótlega, segir í skýrslunni. Umboðsmaður segir að þar sé um að ræða álitaefni sem sé sífellt að verða stærra um sig þar sem stjórnvöld taka í meira mæli en áður þjónustugjöld af veittri þjónustu.

Mörkin milli skatta og þjónustugjalda eru klassískt efni í lögfræðinni og ég ráðlegg og hvet umboðsmann Alþingis til að skoða umræðuna á Alþingi á síðasta vetri hvað varðar skrásetningargjald í Háskóla Íslands, þó ekki sé nema sakir forvitni. Í þeirri umræðu fullyrtu margir þingmenn stjórnarflokkanna fullum fetum að umrætt gjald væri þjónustugjald þótt við bentum ítrekað á að þetta gjald stæði undir allt annarri þjónustu en þeirri sem laut eingöngu að skráningunni. Þarna tel ég að nokkrir þingmenn hafi ruglað allillilega mikilvægum hugtökum, þ.e. þjónustugjöldum og sköttum og gjöldum og upphæð þeirra gjalda sem eru ákvörðuð í sjálfum lögunum eins og er í tilviki skrásetningargjaldsins í Háskóla Íslands. Það er mjög mikilvægt fyrir þingmenn að átta sig á þessum grundvallarmun því að það er ekki leyfilegt að rukka hærra þjónustugjald en sem lýtur einmitt að þeirri þjónustu sem í hlut á.

Eins og ég sagði áðan tel ég að við ættum að gera betur í því að tryggja getu umboðsmanns Alþingis til að stunda svokallaðar frumkvæðisathuganir. Við sáum að eitt af slíkum frumkvæðismálum var hafið í sumar að ósk stjórnarandstöðuflokkanna hér á þingi um úttekt á stöðu mála og vinnubrögðum er tengjast einkavæðingarferlinu. Því máli verða væntanlega gerð skil í skýrslu þessa árs, sem er ekki til umfjöllunar hér, en við sjáum hvað þetta er mikilvægt úrræði, ekki bara fyrir borgarana heldur jafnvel stjórnarandstöðuflokkana hér á þingi og það sýndi sig í þessu máli þegar umboðsmaður Alþingis fór af stað til að skoða einkavæðingarferlið og kallaði eftir upplýsingum frá forsætisráðuneytinu, sem hann fékk.

Frú forseti. Sem fyrr sjáum við að langflest málin er að finna hjá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, eða nánast þriðja hvert mál sem kemur á borð umboðsmanns. Að einhverju leyti er eðlilegt að hlutfallið sé hærra í því ráðuneyti en hjá öðrum. Manni finnst þessi tala samt vera í hærri kantinum og vonandi verður hægt að ná því hlutfalli niður hjá þessu mikilvæga ráðuneyti en þó hefur þróunin undanfarin ár verið á þann veg að hlutfallið hefur verið að hækka frekar en hitt.

Frú forseti. Umboðsmaður Alþingis gerir að umfjöllunarefni samskipti við stjórnvöld, sem auðvitað skipta gríðarlega miklu máli, en hann hefur sagt við hv. þingmenn í allsherjarnefnd að hann hafi skynjað ákveðið metnaðarleysi hjá stjórnvöldum og jafnvel þekkingarleysi og því ber okkur öllum að huga að og reyna að bæta úr. Í langflestum tilvikum fara viðkomandi stjórnvöld eftir áliti umboðsmanns Alþingis og er það að sjálfsögðu vel. En umboðsmaður nefnir tvö dæmi þar sem viðkomandi stjórnvald fór ekki eftir sérstökum tilmælum hans. Í öðru tilvikinu var það dóms- og kirkjumálaráðuneytið og í hinu tilvikinu ónefndur sjóður.

Það er auðvitað alltaf alvarlegt þegar stjórnvöld fara ekki eftir áliti umboðsmanns Alþingis en þannig er bara raunveruleikinn og úrræði embættisins ná ekki lengra. Umboðsmaður Alþingis er ekki dómstóll og menn geta að sjálfsögðu deilt um túlkun laga o.s.frv. en sem betur fer virðist viðkomandi stjórnvald í langflestum tilvikum fara eftir tilmælum embættisins.

Í skýrslunni talar umboðsmaður Alþingis um mikilvægi þess að stjórnvöld tileinki sér umburðarlyndi gagnvart borgurunum og sýni skilning. Við tökum að sjálfsögðu undir það. En í kafla skýrslunnar um viðbrögð stjórnvalda gagnvart þeim sem leitað hafa til umboðsmanns Alþingis tekur hann út þrjú málefni og á bls. 20 má finna umfjöllun um það.

Það er auðvitað mjög alvarlegt þegar umboðsmaður Alþingis sér ástæðu til að setja í skýrslu sína eftirfarandi orð, með leyfi forseta:

„Það kemur þó af og til fyrir að viðbrögð fyrirsvarsmanna stjórnvalda gagnvart þeim sem leitað hefur til mín vekja hjá mér nokkurn ugg. Ég hef þá fyrst og fremst í huga þau tilvik þar sem ég tel að viðbrögð stjórnvalda séu þess eðlis að þau geti haft áhrif á það hvort almenningur, jafnt einstaklingar sem fyrirtæki, leiti til umboðsmanns Alþingis.“

Þetta tengist máli sem varðar Háskóla Íslands og stúdentaráð.

Umboðsmaður segir einnig aðeins síðar, með leyfi forseta:

„Ég tel ástæðu til að gjalda varhug við viðbrögðum stjórnvalda af því tagi sem bréf þetta ber með sér gagnvart þeim sem leitað hefur til umboðsmanns Alþingis.“

Seinna segir:

„Ég legg á það áherslu að Alþingi hefur með lögum veitt borgurunum heimild til að leita með sín mál til umboðsmanns Alþingis og það er til þess fallið að hamla því að borgararnir nýti sér þennan möguleika ef viðbrögð stjórnvalda við afskiptum umboðsmanns eru með þeim hætti sem umrætt bréf Háskóla Íslands lýsir.“

Þetta er auðvitað alvarleg aðfinnsla sem umboðsmaður Alþingis finnur að viðkomandi stjórnvaldi. Borgararnir verða að eiga mjög greiðan aðgang að umboðsmanni Alþingis og það má ekki vera neitt í umhverfinu eða í viðbrögðum stjórnvalda sem getur hamlað þeim aðgangi.

Umboðsmaður Alþingis nefnir í sama kafla annað dæmi, með leyfi forseta:

„Athugun umboðsmanns Alþingis á máli einstaklings sem ber fram kvörtun hefur þá sérstöðu t.d. umfram rekstur dómsmáls, að ákveði umboðsmaður að taka málið til athugunar er það alfarið ákvörðun hans að hverju hún beinist og er umboðsmanni veittur réttur til að krefja stjórnvöld um þær upplýsingar og skriflegu skýringar sem hann þarfnast vegna starfs síns auk gagna viðkomandi máls.“

Stuttu síðar segir hann í sama kafla:

„Það er því augljóslega til þess fallið að vinna gegn tilgangi þess úrræðis sem Alþingi hefur ákveðið að borgurum þessa lands skuli standa til boða ef stjórnvöld svara þeim sem til umboðsmanns hefur leitað og fengið hefur álit hans á þann veg að niðurstaða umboðsmanns hafi byggt á takmörkuðum gögnum og ófullnægjandi upplýsingum.“

Með öðrum orðum segir umboðsmaður að stjórnvöld hafi ekki látið umboðsmanni í té allar upplýsingar um gögn málsins eins og lög áskilja viðkomandi stjórnvöld um.

Þriðji punkturinn sem umboðsmaður Alþingis bendir á skýrslu sinni lýtur að, ef svo mætti segja, ímyndarvinnu ráðuneyta og stjórnvalda sem álit umboðsmanns Alþingis beinist að í fjölmiðlum. Þar gerir hann að umtalsefni fréttatilkynningar og viðbrögð stjórnvalda og ráðuneyta við tilteknum álitum umboðsmanns Alþingis. Ég ætla ekki að fjalla ítarlega um það þar sem það gengur á tímann, en það er auðvitað mjög mikilvægt að trúverðugleiki umboðsmanns Alþingis sé ekki skertur með nokkrum hætti og sé stjórnvald ósátt við niðurstöðu umboðsmanns Alþingis ber stjórnvaldi einfaldlega að fara dómstólaleiðina en ekki einhverja aðra leið.

En eins og ég sagði, frú forseti, hnökrar við stjórnvöld eru sjaldgæfir en það er umhugsunarvert sem umboðsmaður Alþingis sagði í samtali við Morgunblaðið þann 6. júní 2004 og er vert að rifja það upp hér við umræðuna, með leyfi forseta:

„Það setur að mér mestan kvíða þegar ég tel mig geta merkt að einhvers konar hroki ráði afgreiðslu eða framkomu. […] Þeir sem starfa í þágu hins opinbera verða að gæta þess að stjórnsýslan er ekki til fyrir starfsmenn hennar. Hún er til að þjónusta borgarana og leysa úr málum þeirra, samkvæmt þeim lagareglum sem settar hafa verið.“

Ég þarf auðvitað ekki að rifja það upp fyrir þingheimi að undanfarin missiri hafa stjórnvöld brugðist með harðari hætti gagnvart álitum umboðsmanns Alþingis en oft áður. Meira að segja hafa vissir ráðherrar kallað niðurstöður umboðsmanns Alþingis lögfræðilegar vangaveltur, fræðilegar vangaveltur og talað um umboðsmann eins og hann sé einhver álitsgjafi úti í bæ. Maður vill auðvitað trúa því að umboðsmaður Alþingis sé meira en það og hafi þannig vigt að menn virði niðurstöður hans. En það segir auðvitað heilmikla sögu að þegar umsækjendur að háum embættum eins og að embætti hæstaréttardómara segja opinberlega að það þýði ekkert að leita réttar síns hjá umboðsmanni Alþingis í ljósi þess hvernig stjórnvöld og ráðherrar fari með völd sín og niðurstöður umboðsmanns. Það er mjög mikilvægt að ráðherrar grafi ekki undan trúverðugleika og því trausti sem umboðsmaður Alþingis býr yfir og þarf að búa yfir.

Það sagði auðvitað heilmikla sögu þegar umboðsmaður Alþingis neyddist í fyrra til að setja sér sérstakar samskiptareglur í sex liðum gagnvart stjórnvöldum í kjölfar símtals til hans frá þáverandi forsætisráðherra, en eftir því sem ég best veit eru slíkar samskiptareglur einsdæmi.

Að lokum langar mig til að rifja upp eitt mál frá síðastliðnu sumri, sem kemur þá í skýrslu næsta árs, en nú í sumar upplýstist að landbúnaðarráðuneytið varð ekki við ósk umboðsmanns um upplýsingar í máli sem lyktaði með því að hæstv. landbúnaðarráðherra Guðni Ágústssonar var fríaður af ákæru um vanhæfi í skipan stöðu rektors Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri.

Í bréfi hæstv. landbúnaðarráðherra til umboðsmanns sagði:

„Tel ég það ekki vera í verkahring umboðsmanns Alþingis að yfirfara eða endurskoða efnisleg atriði eins og spurt er um undir þessum lið sem ég fyrir mitt leyti tel fullsvarað í rökstuðningi mínum frá 14. september 2004. Mat og hæfi og hæfni þeirra umsækjenda sem hér um ræðir, þar með talið frammistaða þeirra í starfsviðtölum, liggur hjá landbúnaðarráðherra og er efnislegt endurmat með umbeðnum samanburði á einstökum (Forseti hringir.) umsækjendum ekki á valdi umboðsmanns Alþingis.“

Ég tel að við þurfum að gera betur við umboðsmann Alþingis og það er fátt sem sá þingmaður sem hér stendur vill ekki gera fyrir viðkomandi embætti. Við sjáum að embættið fær um 90 milljónir (Forseti hringir.) á ári (Forseti hringir.) sem til samanburðar er fimm sinnum lægri upphæð en t.d. Bændasamtök Íslands fá, þannig að við þurfum að gera betur við viðkomandi embætti (Forseti hringir.) svo að það geti sinnt hlutverki sínu enn betur en það gerir.