132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2004.

[12:45]
Hlusta

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég bregst við orðum formanns allsherjarnefndar þar sem hann fjallar um þörfina á verklagsreglum og hvernig bregðast eigi við ábendingum sem koma í skýrslum frá stofnunum sem undir Alþingi heyra. Við höfum rætt þetta í morgun. Við höfum verið að ræða skýrslu Ríkisendurskoðunar og erum núna að ræða skýrslu umboðsmanns Alþingis. Einmitt þetta, að gefnar eru út skýrslur sem geta verið stjórnsýsluúttektir eða skýrslur um tiltekin einstök mál, þá er staðan þannig í dag að það er ekkert sem tryggir að farið sé að ábendingunum og ekkert sem tryggir heldur að verklag breytist í ráðuneyti þegar verið er að gagnrýna eitthvert ferli. En það er á ábyrgð Alþingis að finna tæki til að farið sé að þeim ábendingum, að ekki séu aðfinnslur eða gagnrýni á ferli sem endar einhvers staðar og verður ekkert gert með.

Formaður allsherjarnefndar nefnir að ráðuneyti og stofnanir eigi að taka upp einhvers konar verklagsreglur um hvernig brugðist sé við og ég tek undir það með honum. Mér finnst þetta góð ábending en jafnframt þarf Alþingi að tryggja að farið sé að þeim ábendingum. Ef til vill þurfum við að vera með sérstaka nefnd hér. Nefnd hefur verið rannsóknarnefnd Alþingis sem mundi taka skýrslur, eins og þær sem við höfum vísað til í umræðunni í morgun, að einhverjum tíma liðnum og kanna hvernig farið hefði verið með ábendingar, hvernig brugðist hefði verið við þeirri gagnrýni sem hér var á ferð.

En ég fagna því líka að hv. 5. þm. Reykv. s., Sólveig Pétursdóttir, nefndi það sérstaklega að hún mundi vísa skýrslu Ríkisendurskoðunar til nefndar og óska eftir að fjallað yrði um hana þar. Það er nýmæli eftir því sem ég best veit. Ég fagna því.