132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2004.

[12:52]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það er kannski ekki þörf á að lengja umræðuna mikið. Þetta er þykk og viðamikil skýrsla eins og vaninn er með skýrslur umboðsmanns sem hingað koma einu sinni á ári. Það gefur augaleið að erfitt er að fara af einhverri dýpt í umræðu um skýrsluna.

Í fyrsta lagi hafa þingmenn haft takmarkaðan tíma til að lesa hana og í öðru lagi er erfitt um vik að taka einhvers konar samtal um jafnviðamikið mál eins og hér er drepið á í því formi sem við búum við. Ég tek undir með þeim þingmönnum sem hafa talað og komið með hugmyndir um möguleika á því að eiga umræður um þessar skýrslur á einhverju því formi sem mætti ætla að skilaði sér betur en einmitt það form sem við búum við í þessum þingsal.

Fjöldi þingmanna hefur talað í umræðunni. Getið hefur verið um þá helstu málaflokka sem umboðsmaður Alþingis fjallar um. Það er athyglisvert að litlar breytingar skuli verða í þessum málaflokkum. Það er u.þ.b. 10% málafjölgun á hverju ári en málaflokkarnir breytast ekki mikið. Þannig eru tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðsla mála enn í fyrsta sæti. Skattar og gjöld, reyndar er nokkur fjölgun frá síðasta ári. Umboðsmaður Alþingis hefur bent allsherjarnefnd á að það sé kannski fyrst og fremst vegna þess að nú eru opinberar stofnanir að innheimta í auknum mæli þjónustugjöld og þá er leitað til umboðsmanns með álitamál um hvort lagaheimildir séu fyrir slíku. Þannig skýrist sú málafjölgun undir skattar og gjöld.

En það er svo aftur pólitískt álitamál sem við getum tekið hér snerru um síðar og eigum auðvitað eftir að gera, hvort það sé rétt pólitík að vera með aðhaldsaðgerðir í ráðuneytunum og hjá opinberum stofnunum sem endi síðan alltaf hjá hinum almenna neytanda, hjá borgaranum, sem er þá látinn bera kostnaðinn í formi þjónustugjalda.

Í þriðja sæti á lista umboðsmanns um skráð mál eða viðfangsefni eru málsmeðferðir og starfshættir stjórnsýslunnar og í fjórða sæti eru opinberir starfsmenn og í fimmta sæti fangelsismálin. Undir hverjum af þessum málaflokkum eru gríðarlega athyglisverð mál sem mætti fjalla um í dýpt og í löngu máli sem ekki er tilefni til nú. Það sem mér finnst kannski standa upp úr eftir þessar umræður og eftir það sem ég hef kynnt mér lauslega í skýrslu umboðsmanns er kannski í fyrsta lagi þær ábendingar sem við fáum frá umboðsmanni um viðbrögð stjórnvalda gagnvart þeim sem leita hefur til umboðsmanns Alþingis. Það er athyglisverður kafli í skýrslunni, í inngangi hennar, á bls. 20, þ.e. 5. kafli undir Störf umboðsmanns Alþingis 2004. Þar gerir umboðsmaður grein fyrir á hvern hátt stjórnvöld hafa kannski verið að taka upp þann sið að bregðast við niðurstöðum umboðsmanns á einhvern hátt sem ekki er alveg hægt að fallast á. Ég hef sannarlega áhyggjur af því að eins og umboðsmaður lýsir þessu í viðkomandi kafla þá sýnist mér skorta á að stjórnvöld séu að bregðast alla tíð af nægilegum skilningi við athugasemdum umboðsmanns Alþingis. Liggur við að í ákveðnum tilfellum séu menn að taka tilmælum sem umboðsmaður kemur með á einhvern persónulegan hátt eða jafnvel að bera því fyrir sig að umboðsmaður hafi ekki haft nægilegar upplýsingar til að ná réttum niðurstöðum í málinu. Það er undarlegt þegar á það er litið að það er á valdi þess stjórnvalds sem kvartað er undan að veita umboðsmanni upplýsingar og hafi umboðsmaður ekki nægar upplýsingar er við það stjórnvald að sakast. Ég held því að þessi kafli um viðbrögð hins opinbera eða hinnar opinberu stjórnsýslu í ákveðnum tilfellum sé eitthvað sem við þurfum að taka til skoðunar. Menn þurfa aðeins að líta í eigin rann í þessum efnum. Auðvitað hljóta þeir sem stjórna í hinni opinberu stjórnsýslu að gera sér grein fyrir því að umboðsmaður Alþingis starfar samkvæmt lögum. Um hann gilda mjög skýr og greinargóð lög. Það hlýtur að vera metnaður hvers og eins stjórnanda, skyldi maður ætla, að vel fari í hans stjórnsýslu. Það ætti að vera í sjálfu sér frumkvæði þeirra sem starfa í stjórnsýslunni að leggja sig eftir því að bæta hana og ég held að því færri álit sem umboðsmaður þarf að senda frá sér á hverju ári, þeim mun betri stjórnsýslu getum við sagt að við séum með og því færri tilefni til alvarlegra umkvartana.

Ég held að við sem störfum við lagasetningu höfum líka fengið í umræddri skýrslu afar, hvað á ég að segja, afdráttarlausar ábendingar um á hvern hátt störf okkar gætu betur farið varðandi lagasetninguna. Því vissulega eru álitamál uppi um á hvern hátt lagasetning fer fram og hvernig hlutum er fyrir komið í lögum. Það eru hér nokkrar ábendingar sem umboðsmaður hefur sett fram varðandi meinbugi á lögum eða almennum stjórnarfyrirmælum. Athyglisvert er að sjá að á þeim málum sem hann telur þar fram hafa verið gerðar bragarbætur í flestum tilfellum. Þetta eru ein fimm mál sem hann nefnir. Eitt varðar heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, annað varðar félagsmálaráðherra, hið þriðja landbúnaðaráðherra og hið fjórða Reykjavíkurborg. Í þessum tilfellum hafa verið gerðar úrbætur en eftir stendur eitt álitamál og það er mál sem umboðsmaður sá ástæðu til að vekja athygli Alþingis og dómsmálaráðherra á. Það varðar tiltekin atriði er lúta að skipun hæstaréttardómara með það í huga að tekin yrði afstaða til þess hvort þörf væri á að fyrirkomulag við undirbúning og ákvarðanir um skipun í embætti dómara við Hæstarétt Íslands yrði tekin til endurskoðunar og lagabreytingar gerðar í því tilefni, ef sú yrði niðurstaðan. Ekki er greint frá viðbrögðum við þessari athugasemd umboðsmanns í skýrslunni. En ég held að við hljótum að verða að bregðast við þessu, hæstv. dómsmálaráðherra og alþingismenn. Þetta er í rauninni af sama meiði og athugasemdir sem komu frá umboðsmanni með síðustu skýrslu, þ.e. skýrslunni fyrir 2003, og gert var að umtalsefni í umræðum um skýrsluna á síðasta ári. Þá benti umboðsmaður okkur á að Norðmenn og nágrannaþjóðir okkar hefðu gert skurk í að skilgreina vel verksvið umboðsmanns gagnvart dómstólunum. Þá var ég að meina stjórnsýsludómstólana, en ekki niðurstöður dómanna. Okkur var bent á af umboðsmanni að Norðmenn hefðu unnið afar gott og ítarlegt verk í þeim efnum og hefðu lagt fram skýrslu á norska þinginu um það á hvern hátt umboðsmaður hefði yfir stjórnsýsludómstólum að segja.

Ég held að þetta séu ákveðnir þættir sem þarf að taka til alvarlegrar skoðunar. Þetta eru athugasemdir sem við megum ekki láta rykfalla á borðum okkar heldur taka verulega mikið mark á.

Eitt finnst mér líka athyglisvert af því sem umboðsmaður hefur fært fram í máli sínu og í kynningu sinni hjá allsherjarnefnd. Það er hversu mikið fræðandi efni hefur safnast saman hjá embættinu. Hann greinir okkur frá löngun til þess að láta vinna ítarlegt fræðsluefni í tilteknum þáttum og í raun sé búið að láta vinna ákveðinn grunn að fræðsluefni í ákveðnum þáttum sem ég held að sé sjálfsagt mál og geti verið verulegur fengur að. Því það segir sig sjálft að þegar maður fær svona bók frá umboðsmanni á hverju einasta ári að á bak við þá vinnu er auðvitað gríðarlega mikið magn af upplýsingum sem hlýtur að vera fengur að að fá í einhvers konar umfjöllun eða einhvers konar dreifingu út í samfélagið þar sem þetta getur nýst þeim sem starfa við stjórnsýsluna. Ég held að þegar öllu er á botninn hvolft hljóti starf umboðsmanns að vera hvatning til þeirra sem starfa innan stjórnsýslunnar um að bæta hana og það á að vera okkur metnaðarmál að fækka álitum umboðsmanns, fækka þeim tilefnum sem borgararnir hafa til að leita réttar síns hjá umboðsmanni.