132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Vandi á leikskólum vegna manneklu.

[14:00]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir þessa mikilvægu umræðu. Það er auðvitað algerlega óviðunandi að ekki takist að manna leikskólana, jafnmikilvæg störf og unnin eru á þeim stofnunum. En hvers vegna tekst það ekki? Ég tel að það sé augljóst. Það snýst auðvitað um kaup og kjör og ég tel ekki við hæfi að vinstri flokkarnir varpi algerlega frá sér ábyrgð í þessu máli. Reykjavíkurborg ræður einmitt ferðinni hvað varðar launanefnd sveitarfélaga, sem sér um að semja um laun og kjör við þetta ágæta starfsfólk. Málið snýst einfaldlega um það. Auðvitað ber ríkið að einhverju leyti ábyrgð hvað það varðar að skammta sveitarfélögunum nægilega fjármuni til þeirra verkefna sem þeim er ætlað að framkvæma samkvæmt lögum.

Ég ætla að minnast á orð hv. þm. Hjálmars Árnasonar. Mér finnst þau ekki vera alveg í samræmi við áramótaræðu hæstv. forsætisráðherra sem talaði mjög digurbarkalega og landsföðurlega um mikilvægi uppeldis- og umönnunarstarfa og mikilvægi barna- og fjölskyldumála. Nú virðist annað vera upp á teningnum. Hv. þingmaður telur að það sé einhver sátt um launastefnuna, þennan gríðarlega launamun sem orðinn er í landinu. Ég get sagt hv. þingmanni að við í Frjálslynda flokknum erum ekki sáttir við þá launastefnu. Við teljum, eins og fram kom í ræðu hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, að það sé ekki sátt um það hvernig skattbyrðinni er í auknum mæli velt á þá sem hafa lægri launin og af þeim sem hafa hærri launin. Það er ekki sátt um það. Ég vona að aðrir þingmenn Framsóknarflokksins fari ekki með slíkt fleipur að það sé einhver sátt um það frekar en annað sem menn vilja telja fólki trú um að sátt sé um í þjóðfélaginu, sem alls ekki er.