132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Vandi á leikskólum vegna manneklu.

[14:02]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þá góðu umræðu sem hér hefur farið fram. Ég vil líka þakka viðbrögð hæstv. menntamálaráðherra vegna þess að augljóst er að hún ber þetta mál fyrir brjósti og það er gott að vinna er farin í gang. Hins vegar skora ég á menntamálaráðherra, eins og ég sagði áðan í ræðu minni, að setja aukið fjármagn í leikskólakennaranámið þannig að hægt sé að taka fleiri inn en gert er í dag vegna þess að það er augljóst að einungis 34% starfsmanna sem starfa við kennslu í leikskólanum eru með leikskólakennaramenntun. Við þurfum því að gera átak í að fjölga þeim.

Ég vil einnig, virðulegi forseti, þakka fyrir þá umræðu sem hefur átt sér stað um kjörin vegna þess að það á ekki að vera eðlilegt að á þenslutímum streymi fólk út úr leikskólunum eins mikilvæg og störfin þar eru og fari í önnur störf. Við verðum auðvitað að endurmeta hvernig við verðleggjum störfin í samfélaginu af því að það er ekkert rökrétt við það að fólk sem vinnur með börnunum okkar sé á lægstu laununum.

Sveitarfélögin hafa staðið mjög vel að uppbyggingu leikskólanna. Það hefur orðið mikil sprenging í því alls staðar hjá sveitarfélögunum síðustu ár. Þau hafa gert mjög vel en þau eiga ekki að gera þetta ekki allt ein. Vissulega eru ákveðnir þættir sem þau sjá um en það eru líka ákveðnir þættir sem á að sjá um af hálfu menntamálaráðherra, þ.e. menntun leikskólakennaranna. Sömuleiðis þarf að koma þaðan skýr pólitískur vilji til að auka og bæta tekjustofna sveitarfélaganna þannig að þau geti staðið undir stefnumarkandi ákvörðunum, eins og við munum án efa taka hér um að bæta kjör þessa hóps. Mér heyrist vera samhugur um það hér og það er skoðun mín að við eigum að ganga samhent til þess verks vegna þess að þetta er mál okkar allra og gengur þvert á pólitískar línur.