132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2004.

[14:07]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Nú tökum við á ný til við að ræða þá merku skýrslu sem er skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2004. Áður en ég held áfram að ræða um skýrsluna ætla ég að taka undir þær hugmyndir sem hafa komið fram í umræðunni um að breyta ætti því fyrirkomulagi sem er þegar þessi skýrsla er rædd. Æskilegra væri ef hægt væri að ræða beint við þann sem semur skýrsluna fyrir opnum tjöldum, (Gripið fram í.) þetta er mikil skýrsla, í stað þess að við ræðum hana hér og það er í rauninni enginn til andsvara. Ég tek heils hugar undir þá hugmynd hv. þm. Ögmundar Jónassonar. Það yrði í rauninni til þess að umræðan væri til meira gagns og til mikilla bóta ef höfundar skýrslunnar gætu þá svarað fyrir verk sín.

Ég tek fram að hér var til umræðu önnur skýrsla í dag, skýrsla Ríkisendurskoðunar. Ég tel þessa skýrslu vera að mörgu leyti miklu betra plagg en hana og ég mun e.t.v. ræða það lítillega í áframhaldinu.

Það liggur greinilega mikil vinna á bak við þessa skýrslu. Bæði er gríðarlega mikill fjöldi mála skráður hjá embættinu, skráð voru 323 mál árið 2004 en árið 2002 voru málin 280. Málum hefur fjölgað um liðlega 40 á tveggja ára tímabili. Þeim fer sífjölgandi og má jafnvel búast við því þeim fari áfram fjölgandi, þ.e. ef menn taka þessa skýrslu ekki meira sem kennslugagn fyrir stjórnsýsluna. Í sjálfu sér er ágætt að við ræðum þessa skýrslu en það er miklu meira virði að hún fari í almenna umræðu í stjórnsýslunni sjálfri og verði notuð sem kennslugagn um það hvernig hægt er að bæta stjórnsýsluna í landinu. Það skiptir öllu máli. Það er líka athyglisvert að hjá embættinu starfa aðeins níu manns og hefur því greinilega verið talsvert verk að koma skýrslunni út.

Einnig er rétt að rifja upp hlutverk umboðsmanns. Hlutverk hans er að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt að tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum. Það er því gríðarlega mikilvægt verkefni sem umboðsmaður hefur með höndum. Hann á að vera óháður öðrum og það skiptir verulega miklu máli. Stjórnsýslulög voru sett árið 1993 og þess vegna ætti stjórnsýslan í landinu að vera búin aðlaga alla starfshætti sína að þessum lögum. Það eru 12 ár síðan lögin tóku gildi.

Í morgun var fundur með umboðsmanni Alþingis. Það kom skýrt fram hjá honum á fundi allsherjarnefndar að ákveðnir meinbugir væru á því að fyrirmæli stjórnsýslulaga væru komin inn í almenna starfshætti stofnana. Eflaust má búast við að gerð verði bragarbót á því vegna þess að í stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra í haust kom fram sú fullyrðing að efla ætti að stjórnsýsluna. En það kom einnig fram önnur fullyrðing í stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra. Hún var sú að íslensk stjórnsýsla væri sú þriðja skilvirkasta í heimi. Það munar ekki um það, þriðja skilvirkasta. Það kemur því á óvart að í svo skilvirkri og öflugri stjórnsýslu geti svo fáir menn, 9 manns, komið saman svona miklu plaggi um meinbugi á stjórnsýslunni. Ég held að menn ættu að skoða hvað liggur að baki slíkri einkunnagjöf að íslensk stjórnsýsla sé þriðja skilvirkasta í heimi. Ég efast um það og mig grunar jafnvel að þetta sé álíka einkunnagjöf og við fengum varðandi listann um spillingu þar sem Ísland trónaði efst á lista meðal þjóða sem hvar minnst spilling er í heiminum. Þegar farið var að skoða hvað lá að baki þá var það kannski ekki mikið, enda getur þjóð sem felur framlög fyrirtækja og almennings í kosningasjóði lýðræðislega kjörinna stjórnmálaafla varla talist mjög óspillt. Það býður upp á spillingu og ég tel að það þurfi að kanna betur. Eins það sem við sáum þegar Eftirlitsstofnun fór að höggva of nærri hreiðrum stjórnarflokkanna að þá var hún einfaldlega lögð niður. Það eru ýmsar grunsemdir um þessi listi sé ekki fullkominn frekar en sú könnun sem hæstv. forsætisráðherra vitnaði í.

Fleira má nefna, svo sem einkavæðingu ríkisbankanna sem hæstv. forsætisráðherra hagnaðist persónulega á. Ég ætlaði einmitt að minnast á að ef maður ber saman vinnubrögð við skýrslu Ríkisendurskoðunar og skýrslu umboðsmanns Alþingis þá er þar mikill munur á. Í skýrslu umboðsmanns Alþingis kemur t.d. fram í mjög alvarleg gagnrýni á stjórnvöld en ríkisendurskoðandi hljóp þvert á móti út fyrir sitt verksvið til að gefa hæstv. forsætisráðherra einhverja syndaaflausn. Þar sjáum við allt annað verklag. Hér fáum við leiðbeiningar og ég er á því að þessi skýrsla geti orðið til miklu meira gagns fyrir þjóðina en sú sem var til umræðu fyrr í dag. Ég ætla að lesa upp úr henni ákveðna kafla sem eru mjög alvarleg gagnrýni á ákveðin atriði, hvernig við högum stjórnsýslu okkar, m.a. skipan í dómaraembætti hjá Hæstarétti. Ég tel að stjórnvöld ættu að leggja við hlustir og fara í meira mæli eftir ábendingum umboðsmanns.

En það er fleira sem er þess valdandi að ég efast um að íslensk stjórnsýsla eigi þann heiður skilinn að vera í þriðja sæti sem sú skilvirkasta í heiminum. Þá ætla ég að nefna að á bls. 29 í þessari skýrslu segir frá því að kvartað hafi verið 55 sinnum undan töfum við afgreiðslu mála hjá stjórnsýslunni og ég er sannfærður um að þetta er bara toppurinn á ísjakanum. Það eru miklu fleiri mál sem gætu verið á þessum lista og margfalt fleiri mál þar sem stjórnvöld hafa tafið afgreiðslu mála. Þarna hlýtur að vera hægt að bæta úr. Málunum hefur fjölgað. Það voru 51 mál árið áður og ég er sannfærður um að þessar tölur segja ekki nema hálfa söguna.

Sjálfur hef ég lent í því að ætla að fá upplýsingar frá ákveðinni stofnun, Fiskistofu. Ég óskaði eftir upplýsingunum í september 2004 og ég er ekki enn þá búinn að fá svör, ég fékk að vísu bréf en engin svör.

En það er alvarlegra að eftir afskipti umboðsmanns Alþingis, sem voru góð í því tilfelli, úrskurðaði sjávarútvegsráðuneytið mér í vil. Stjórnsýsluúrskurður þess var á þá leið að Fiskistofa ætti að veita mér ákveðnar leiðbeiningar. En það er eins og þetta stjórnvald, Fiskistofa, fari ekkert eftir æðra stjórnvaldi. Það er náttúrlega alvarlegt og segir okkur í sambandi við þennan lista, að við séum með þriðju skilvirkustu stjórnsýslu í landinu, að þar sé ýmislegt að og að taka þurfi til hendinni.

Einnig má nefna að ákveðin úrskurðarnefnd um upplýsingamál, sem heyrir undir sjálfan hæstv. forsætisráðherra, biður þessa ágætu stofnun um upplýsingar, og ekki einu sinni heldur margoft, en Fiskistofa lætur þær upplýsingar ekki í té þó að óskað sé eftir þeim í trúnaði. Maður er að mörgu leyti hissa þegar um er að ræða stofnanir sem fá mörg hundruð milljónir frá almenningi í landinu til að ráðstafa og maður verður var við svona meinbugi. Þá fer maður að velta fyrir sér: Hvað með aðra starfsemi sem fer þar fram? Það skiptir verulega miklu máli fyrir stofnanir ef þær vilja halda trúverðugleika að vel sé greitt úr máli manna sem leita þangað, annað er algerlega óviðunandi.

En hver er ástæðan fyrir því að slíkar tafir verða og stofnanir fara jafnvel ekki eftir stjórnvaldsúrskurði? Ég tel að það megi líta svo á að æðstu stjórnendur ríkisins hafi jafnvel á stundum verið að draga úr trúverðugleika umboðsmanns Alþingis. Um það sáum við skýr dæmi í fyrra þegar hæstv. dómsmálaráðherra talaði um álit umboðsmanns með mjög léttvægum hætti, ræddi um það sem einhverjar lögfræðilegar vangaveltur. Einnig voru afskipti þáverandi forsætisráðherra af störfum umboðsmanns á þann veg að umboðsmaður sá sig knúinn til að setja ákveðnar reglur um samskipti við stjórnvöld. Þeir sem eru í æðstu stjórn ríkisins þurfa að koma öðrum skilaboðum út í kerfið, þeir þurfa að koma því til skila að við eigum að bæta stjórnsýsluna, að við eigum að leitast við að fara eftir úrskurði og áliti umboðsmanns Alþingis, það er mjög mikilvægt.

Ég vona svo sannarlega að í störfum hæstv. forsætisráðherra í að bæta stjórnsýsluna komi hann þessum skilaboðum áleiðis. Því miður var það ekki gæfulegt að ríkisendurskoðandi skyldi hlaupa til og veita honum aflátsbréf, auðvitað átti hann að afþakka það. Þá var verið að láta stofnun fara út fyrir sitt verksvið.

Ég vil nefna að ég tel það mikinn áfellisdóm, eða skýr skilaboð, sem kemur fram í skýrslu umboðsmanns Alþingis á bls. 137.

Þar segir, með leyfi frú forseta, varðandi skipan í störf hæstaréttardómara:

„Ég tel að það sé ekki fallið til þess að viðhalda og styrkja traust manna á æðsta dómstól þjóðarinnar ef val á nýjum dómara leiðir til verulegra opinberra deilna um hæfni viðkomandi til að gegna starfinu eða þá aðferð sem viðhöfð var við val á honum. Það að mér skuli berast þrjár kvartanir vegna ákvörðunar dómsmálaráðherra um veitingu sama embættis hæstaréttardómara og ég telji tilefni til að taka þær til athugunar með þeim hætti sem gert er í áliti þessu auk þeirrar umræðu sem orðið hefur í þjóðfélaginu um umrædda embættisveitingu hæstaréttardómara.“

Þetta er mjög alvarlegt og ég tel að hæstv. dómsmálaráðherra ætti að taka þessa skýrslu og þessi orð til athugunar. Það er varla hægt að tala með skýrari hætti um að það þurfi að breyta í stjórnsýslunni og það þurfi að skipa hæstaréttardómara með þeim hætti að menn séu ekki í eilífum deilum bæði í þessum þingsal og úti í þjóðfélaginu, ég tel að það sé einfaldlega til góða.

Við höfum orðið vör við það í öflugasta lýðræðisríki í heimi, Bandaríkjunum, að þar hafa verið uppi efasemdir um skipan hæstaréttardómara og sjálfur Bush tók til greina að það væri kannski rétt að slá af og vera ekki að skipa mjög umdeildan mann í það embætti. En hér halda menn áfram á þeirri braut. Ég tel það áhyggjuefni. Ég skora á (Forseti hringir.) hæstv. dómsmálaráðherra að taka þessi orð í skýrslunni til greina og fara vandlega yfir þau.