132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Gjaldfrjáls leikskóli.

26. mál
[14:56]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það er kannski ekki miklu við að bæta. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór mjög vel yfir meginatriði þessa máls. En það er kannski rétt að taka upp þráðinn þar sem honum var sleppt í síðasta andsvari um einmitt þá pólitík sem í þessu máli er. Það er í sjálfu sér með ólíkindum að menn skuli ekki, hvar í flokki sem þeir standa, geta fylkt sér um tillögu af þessu tagi sem við hér nú ræðum.

Hér er um að ræða þvílíkt réttlætismál sem jafnar lífskjör og framkallar breytingar í átt til fjölskylduvænna samfélags og við tölum öll um fjölskylduvænna samfélag sama úr hvaða flokki við komum. Ef við meinum eitthvað með þeim fullyrðingum okkar að vilja vinna að því að samfélag okkar verði fjölskylduvænna þá ættum við að sjálfsögðu að taka þessari tillögu hér fagnandi. Ég mundi segja að það væri eðlilegt að stjórnmálamenn gætu fylkt sér um þessa tillögu og á endanum verður það eflaust þannig að við komum til með að fá breiðan stuðning við þetta hvar sem menn standa í flokki.

Mér er nokkuð ofarlega núna í sinni sú umræða sem við fórum í gegnum áðan um manneklu á leikskólunum og það sem kom fram í máli hæstv. menntamálaráðherra í þeirri umræðu. Það á ágætlega við þessa umræðu hér, þ.e. að gera grein fyrir því og minna á það aftur hvernig hæstv. ráðherra neitar að bera ábyrgð á nokkrum sköpum hlut sem tengist leikskólunum nema því að leikskólakennarar fái góða menntun. Það er sá eini þáttur sem hæstv. menntamálaráðherra getur með nokkru móti tekið til sín ef marka má orð hennar hér úr ræðustól fyrir einni klukkustund síðan.

Það er til mikils vansa þegar stjórnmálamenn, ég tala nú ekki ráðherrar, geta ekki viðurkennt að hér er um málefni að ræða sem tengist fjárskiptingu tekjustofnanna milli ríkis og sveitarfélaga. Eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gat um áðan hafa sveitarfélögin verið rekin með tapi í á annan áratug. Það hlýtur að vera hægt að fá fólk af einhverri sanngirni til þess að horfast í augu við þann vanda sem þar er til staðar. Það getur ekki verið að hæstv. ríkisstjórn komist stöðugt upp með það að halla sér bara aftur í sætinu, halda áfram að lækka skatta og segja að sveitarfélögin geti bara bjargað sér. Það var nákvæmlega það sem lá í orðum hæstv. menntamálaráðherra þegar við vorum að tala um mannekluna á leikskólunum áðan sem hún viðurkenndi svo sem alveg að væri eingöngu vegna bágra kjara. En hún sagði jafnframt að það væri á ábyrgð sveitarfélaganna að hækka þau laun sem leikskólakennurum væru boðin.

Það er ekki hægt að lifa í því glerbúri sem þessi ríkisstjórn virðist gera. Að því leytinu til er nauðsynlegt að menn horfist í augu við að leikskólastigið er fyrsta skólastigið. Það var formlega viðurkennt sem fyrsta skólastigið 1994 svo það er ekki neitt sem ætti að koma ríkisstjórninni á óvart. Við höfum haft aðalnámsskrá sem hefur verið sett fyrir leikskólastigið síðan 1999 og ég get ekki séð annað en að það sé eðlilegt framhald að leikskólastigið verði jafnframt gjaldfrjálst þannig að öll börn njóti sama aðgengis að leikskólanámi og að grunnskólanámi. Leikskólinn á í mínum huga að vera hluti af menntakerfinu alveg eins og grunnskólinn og það er eðlilegt að leikskólarnir séu reknir af opinberum aðilum. Þess vegna tel ég líka eðlilegt að viðhafa sömu reglur um gjaldtöku í leikskólum og grunnskólum. Þar af leiðandi er einsýnt og einboðið að leggja eigi niður skólagjöld í leikskóla. En það á að vera sameiginlegt verkefni ríkis og sveitarfélaga.

Það er sameiginlegt verkefni ríkis og sveitarfélaga að reka fjölskyldustefnu. Leikskólanám barna er mikilvægt í því tilliti. Foreldrar eiga möguleika á að ná jafnvægi á milli heimilis og vinnu ef vel er staðið að leikskólamálum. Ókeypis leikskóli getur þannig létt vinnuálagi af foreldrunum og það þýðir þá aukinn tíma foreldranna með börnunum. Það er aukin forvörn í málefnum barnanna. Þau leiðast síður út í félagsleg afglöp eða lenda á félagslegum glapstigum ef þau hafa fengið gott atlæti og góðan tíma með foreldrum sínum. Því held ég, í þessu ljósi, að þetta sé mál sem við eigum að geta sameinast um þvert á alla flokkapólitík.

Hv. framsögumaður gat um börn innflytjenda eða nýrra Íslendinga. Það er alveg ljóst að gjaldfrjáls leikskóli mundi efla íslenskukunnáttu barna innflytjenda til muna. Þar af leiðandi mundi hann styrkja líka og efla félagslega aðlögun þeirra. Síðan held ég að það sé líka verkefni sem leikskólinn er tilbúinn til að fást við að skoða stöðu nýrra Íslendinga og styðja við menningarlega sjálfsmynd þeirra. Það er gefandi fyrir okkur öll. Lykilatriði eins og fjölbreytni þurfa að vera í öllu leikskólastarfi. Við getum svo mikið lært af því að vinna þvert á menningarheima hvað það varðar þegar við höfum tækifæri til þess. Leikskólamenning er nokkuð sem hefði verið gaman að ræða hér og það hversu mikilvægt er að íslenskir leikskólar bjóði öllum börnum jafngild tækifæri burt séð frá því hvaða menningarheimi þau eru sprottin úr. Ég tel því að mörg tækifæri séu í leikskólanum sem leikskólakennarar eru sér fullkomlega meðvitaðir um og auðvitað sveitarstjórnarfólk líka. Allir eru sammála um að það sé mikilvægt að styðja og styrkja leikskólann. Ég held að þá sé líka einboðið og skref sem við verðum að stíga að gera hann að hluta af hinu sjálfsagða opinbera skólakerfi. Hann er það samkvæmt lögum. En hann er það ekki á meðan við þurfum að borga þjónustugjöld fyrir að vista börnin okkar þar.