132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Aðstoð við fórnarlömb náttúruhamfaranna í Pakistan.

[13:45]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er alveg ljóst að það er mikil vá fyrir dyrum í Kasmír-héraði í Pakistan. Við Íslendingar hljótum að skilja það mjög vel að nú þegar vetur brestur á og kuldinn fer að kvelja ofan á allt annað er rétt að vekja athygli á þessu málefni. Alþjóðasamfélagið virðist hafa verið nokkuð seint í gang varðandi þessar hamfarir og það er skiljanlegt að hv. þm. Ögmundur Jónasson vilji vekja athygli á þessu málefni og ekki síst þeim söfnunum sem í gangi eru hjá Rauða krossinum og þjóðkirkjunni. Þess vegna held ég að hv. þingmaður hafi tekið þetta málefni upp undir þessum lið. Hér á eftir munum við ræða fjáraukalögin þar sem liggur fyrir í frumvarpi ýmiss konar aðstoð, þróunaraðstoð, mannúðarmál og neyðaraðstoð. Þar er lagt til að 31 millj. kr. renni til stuðnings fórnarlömbum fellibylsins Katrínar og í nýjustu tillögum sem komu frá ríkisstjórninni er gerð tillaga um 18,1 millj. í neyðaraðstoð í kjölfar jarðskjálftanna í Pakistan sem skiptist á milli Rauða krossins, UNICEF og World food program.

Í fjáraukalögunum er einnig lagt til að 50 millj. kr. verði veitt til uppbyggingar og þróunarstarfs á Sri Lanka þannig að það er augljóst að við erum að leggja til fjármuni, ríkissjóður er að leggja til fjármuni, í hjálparstörf víða. Það er eins og þetta ár hafi borið með sér miklar náttúruhamfarir og margs konar víða um heim. Íslendingar hafa gjarnan viljað bregðast vel við þegar þannig stendur á og það munum við auðvitað gera áfram.