132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Aðstoð við fórnarlömb náttúruhamfaranna í Pakistan.

[13:48]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir að taka þetta mál svo rækilega hér upp á Alþingi. Náttúruhamfarir hafa oft dunið á Íslendingum og við þekkjum í raun margar þær hörmungar sem því geta fylgt.

Þær náttúruhamfarir sem urðu í Kasmír eru með þeim hrikalegri sem yfir heimsbyggðina hafa dunið. Í Morgunblaðinu 13. nóvember sl. er vitnað í rithöfundinn Salman Rushdie. Það er sagt að um 86 þúsund manns a.m.k. hafi týnt lífi og rithöfundurinn sagði, með leyfi forseta, „að svo virtist sem fólk á Vesturlöndum og um allan heim þjáðist af einhvers konar „samúðarþreytu“ og biði þess nú, að heljarkuldi Himalajafjallanna ræki smiðshöggið á hin skelfilegu örlög fólksins í Kasmír.“

Frú forseti. Samkvæmt því fjáraukalagafrumvarpi sem nú liggur fyrir er einmitt gerð grein fyrir því að 50 millj. kr. verði lagðar til svæðanna sem urðu fyrir flóðunum í upphafi ársins. Þótti engum það sérstaklega há upphæð. Þar er þess getið að 31 millj. kr. fer í Bush-Clinton sjóðinn vegna fellibylsins Katrínar. Auðvitað var það hörmulegur atburður og sjálfsagt að styðja það en ríkisstjórnin leggur til 18 millj. í fjáraukalagafrumvarpinu til náttúruhamfaranna í Kasmír.

Ég tek undir orð hv. þm. Péturs Blöndals hér áðan. Við stöndum okkur ekki hér. Við eigum að gera betur og það er tækifæri til þess nú þegar við afgreiðum fjárlögin, frú forseti.