132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[15:24]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er í sjálfu sér gott að það er einn hv. stjórnarþingmaður sem hefur áhyggjur af því hvernig staða efnahagsmála er hvað varðar útflutningsatvinnugreinarnar, það eru ekki margir aðrir.

Hv. þingmaður spurði hvað bæri að gera. Ég leyfi mér að vitna í umsagnir fjármálasérfræðinga, m.a. hjá Seðlabankanum, um að nú sé ekki rétti tíminn fyrir skattalækkanir sem koma eingöngu hátekjufólki til góða. Númer eitt væri að fresta þeim ef ekki að hætta við þær alveg.

Það gefur augaleið að sá vaxtamunur sem nú er á lánamarkaði á Íslandi og erlendis upp á 7,5%, eitthvað þar um bil, gengur ekki. Það gengur ekki að hægt sé að flytja hingað inn fé í stórum stíl til þess að hagnast á þeim vaxtamun. Það er verið að blóðmjólka eignir almennings í landinu með þeirri stefnu.

Það er mitt mat að Seðlabankinn hafi byrjað of fljótt að hækka vexti og byrjað á of háu stigi. Hann hefði átt að vera kominn neðar. Eftir að efnahagslægðinni í kringum 2001 lauk hefði Seðlabankinn átt að vera kominn neðar í sínum vöxtum til að hafa meira svigrúm til þess að mæta þeim kröfum sem til hans eru gerðar varðandi tökin á efnahagsmálunum, sem hann hefur nánast eingöngu gegnum vexti. (Forseti hringir.)