132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[15:28]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það skal ekki standa á mér að staðfesta það að gengið sé allt of hátt og vextir séu allt of háir og að viðskiptahallinn sé allt of mikill. En ég er ekki við stjórnvölinn, því miður. Því miður er það ekki ég sem er við stjórnvölinn, frú forseti. (Gripið fram í: Hvað viltu gera?) Það er Seðlabankinn og meiri hluti ríkisstjórnarinnar sem er við stjórnvölinn. (Gripið fram í: Þín skoðun. Hvað viltu gera?)

Mín skoðun er sú að fyrst verður að losna við þessa ríkisstjórn því að hún virðist ekki ráða við þetta. Hún er ekki að koma núna fyrst til valda, er það? Kom hún til valda í haust? (Gripið fram í: Hvað viltu gera?) Nei. Hún er búin að vera hér í tólf ár. (Gripið fram í.) Og núna kemur helsti forsprakki Sjálfstæðisflokksins í fjármálum og spyr stjórnarandstöðuþingmann: Hvað á ég að gera? Hvað á ég að gera, hrópar hv. þm. Einar Oddur í örvæntingu sinni. (Gripið fram í: Hvað viltu gera?)

Ég vil fyrst losna við ríkisstjórnina, síðan verður að sjálfsögðu að draga til baka skattalækkanirnar sem ríkisstjórnin hefur trú á, skattalækkanir sem koma fyrst og fremst hátekjufólkinu til góða, því hátekjufólki sem er að eyða, því hátekjufólki sem stendur að baki hinni miklu einkaneyslu. Það er ekki fátæka fólkið, það eru ekki öryrkjar, það eru ekki ellilífeyrisþegar sem standa fyrir þessari auknu einkaneyslu. Nei, það er dekurfólk ríkisstjórnarinnar, m.a. Sjálfstæðisflokksins, sem fær aukin vilyrði í lækkun skatta til þess að geta eytt meiru og stuðlað m.a. að viðskiptahallanum.

En vextirnir eru allt of háir, ekki síst þeir innlendu vextir sem nú bitna harðast á íslensku atvinnulífi.