132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[16:18]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu er ég hjartanlega sammála því að embættum ríkisins ber að fara að lögum og skiptir þá engu hvort um er að ræða forsetaembættið eða einstök ráðuneyti, til að mynda utanríkisráðuneytið. Það hlýtur að vera alvarlegt mál þegar forsetaembættið virðist fara svo langt fram úr fjárlögum. Það hlýtur líka að vera alvarlegt þegar utanríkisráðuneytið virðist fara jafnhrikalega fram úr fjárlögum á hverjum tíma, eins og vísbendingar eru um í þessu frumvarpi til fjáraukalaga.

Nú veit ég svo sem ekki, virðulegi forseti, hvort það var gert en ég ætla að leggja til — hafi það ekki verið gert geri ég það að tillögu minni — að það verði hreinlega farið út í greiningu á þessum hlutum. Mér heyrist á svari hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar að slík greining hafi ekki farið fram. Það ætti hreinlega að gera slíka greiningu og athuga í hverju þessar framúrkeyrslur felast, bæði hjá forsetaembættinu og utanríkisráðuneytinu. Alþingi ætti að fá skýrslu um hvað hafi farið úrskeiðis. Það er að sjálfsögðu mjög alvarlegt ef ekki einu sinni fulltrúar í fjárlaganefnd vita hvað hefur átt sér stað. Er þetta risna eða ferðalög? Er þetta uppihald á embættismönnum, rekstur sendiráða, opinberar heimsóknir? Í hvað hafa þessir peningar farið?