132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[17:15]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þessari umræðu var frestað vegna þess að ég taldi ástæðu til að eiga orðastað við hæstv. fjármálaráðherra sem þurfti að bregða sér úr húsi og hafði auðvitað lögmæt forföll. Ég vænti þess að hæstv. fjármálaráðherra hlýði á mál mitt nú en ég sé hann, virðulegi forseti, hvorki í salnum né í hliðarsal. Væri ef til vill ráð að vekja athygli hæstv. ráðherra á því að ræðumaður sem hér stendur óskar eftir nærveru hans.

(Forseti (RG): Hæstv. fjármálaráðherra var kominn í salinn. Ég bið ræðumann að hafa smábiðlund meðan kannað er hvort hann kemur ekki að vörmu spori.)

Mér er ekki vel við að standa hér og mæla ekki orð af munni úr hinum virðulega ræðustól þingsins svo ég hef nú mál mitt.

Í dag hefur verið farið nokkuð ítarlega yfir frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2005. Fyrsti minni hluti fjárlaganefndar, fulltrúar Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd, hefur gert því góð skil. Það kemur reyndar fram í nefndarálitinu, eins og raunar er orðið hefðbundið ár eftir ár, virðulegi forseti, að mikil framúrkeyrsla er á fjárlögum og þarf að grípa til fjáraukalaga. Mér sýnist, virðulegi forseti, á því sem ég hef skoðað að vanáætlanir umfram útgjöld, bæði á tekju- og gjaldahlið, fari vaxandi ár frá ári. Í nefndaráliti frá 1. minni hluta fjárlaganefndar segir:

„Sjaldan eða aldrei hafa forsendur fjárlaga beðið annað eins skipbrot og einu viðbrögð ríkisstjórnar eru skattalækkanir sem gagnast þeim einum sem mest hafa handa á milli.“

Og hér segir, með leyfi forseta:

„Blekkingarleikur með fjárlög hefur einkennt þá ríkisstjórn sem nú situr og því miður hefur meiri hluti Alþingis ekki viljað efla eftirlitshlutverk Alþingis með framkvæmdarvaldinu.“

Þetta er hverju orði sannara. Það er mikið áhyggjuefni fyrir okkur sem sitjum á löggjafarþinginu að fjárlög íslenska ríkisins séu ekki marktæk. Vanáætlanir á fjárlögum, sem blasa við á fjáraukalögum ár hvert, skipta ekki milljörðum heldur milljarðatugum og svo virðist að farið sé gróflega á svig við fjárreiðulög, eins og rætt hefur verið hér í dag. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra hvort hann geti ekki verið sammála því að farið sé á svig við fjárreiðulög. Mér er kunnugt um að hæstv. fjármálaráðherra átti þátt í því að semja frumvarp til fjárreiðulaga þannig að hann á að vera kunnugur ákvæðum þess og ég get ekki betur séð en að farið sé gróflega á svig við fjárreiðulögin og af því ber að hafa áhyggjur.

Vissulega eru lausatök á fjárlögunum. Ég hef látið taka saman fyrir mig, virðulegi forseti, hvernig þessar vanáætlanir hafa litið út á gjalda- og tekjuhlið á síðastliðnum fimm árum, á árunum 2000–2004, og látið skoða hver frávik eru frá fjárlögum viðkomandi ára og fram til ríkisreiknings. Það er alveg ljóst að umframkeyrsla er gífurleg. Í þeirri samantekt sem ég lét gera má sjá að árin 2000–2004, á fimm ára tímabili, er umframkeyrsla á gjaldahlið fjárlaga hvorki meira né minna en 119 milljarðar kr. Það er meira en þriðjungurinn af fjárlögum íslenska ríkisins í ár.

Það er alveg ljóst að fjárlagavaldið er að verulegu leyti að flytjast til framkvæmdarvaldsins. Það hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir okkur sem hér sitjum að samþykkt séu eftir á, á því fimm ára tímabili sem um ræðir, útgjöld upp á 119 milljarða kr. Útgjöld upp á 119 milljarða kr. sem Alþingi hefur ekki samþykkt heldur er komið eftir á til þingsins og það beðið að samþykkja orðinn hlut.

Ég spyr, af því að í stólnum er nýr fjármálaráðherra, hvort hann hafi ekki áhyggjur af þessu og hvort hann ætli ekki að ráðast í þetta á einhvern annan hátt en gert hefur verið hingað til. Ég spyr hvort framkvæmdastjórar fyrirtækja með framúrkeyrslu upp á svo háar fjárhæðir, 119 milljarðar eru 10% frávik frá fjárlögum, væru ekki bara reknir?

Þetta eru himinháar fjárhæðir og Alþingi á ekki að láta framkvæmdarvaldið keyra yfir sig og standa ár eftir ár eftir ár frammi fyrir svo miklum útgjöldum sem fara fram úr fjárlögum. Bara á árinu 2002 voru frávikin 25 milljarðar kr. og árið 2002 voru það 28 milljarðar eða 11,7% frávik. Það varðar örugglega brottrekstri í öllum venjulegum fyrirtækjum ef framkvæmdastjórar sýna slíka niðurstöðu. Þegar horft er á tekjuáætlunina, t.d. í skatttekjum, þá er í heild á þessum árum um að ræða 28 milljarða í tekjur umfram það sem gert var ráð fyrir á fjárlögum, sem eru 2,5% frávik. Þegar allar tekjur eru teknar er um að ræða 24 milljarða í frávik þar sem rauntekjur sem ríkissjóður fær eru hærri en fjárlög gera ráð fyrir.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann telji eðlilegt að við séum að tala um tölur upp á 119 milljarða í útgjöld sem framkvæmdarvaldið tekur ákvörðun um fram hjá þinginu og að tekjuáætlanir séu svona vanmetnar. Ef við tökum þessa 119 milljarða á því tímabili sem ég nefndi þá sýnir þetta raunverulega halla upp á 95 milljarða kr. miðað við fjárlögin. Og ef fjárlögin hefðu gengið eftir væri fjárhagur ríkissjóðs að sama skapi 95 milljörðum betri en hann er. Auðvitað er ýmislegt af þessu nauðsynlegt í útgjöld umfram það sem fjárlög gera ráð fyrir en við getum ekki verið að tala um svona háar fjárhæðir nema eitthvað mikið sé að, virðulegi forseti.

Svo virðist sem aldrei sé tekið á uppsöfnuðum vanda frá fyrri árum heldur standa menn alltaf frammi fyrir því að vera með tugi milljarða í umframútgjöld frá fjárlögum. Það segir okkur auðvitað, og er einn liður í því sem talað hefur verið fyrir, m.a. af þeim forseta sem nú situr í forsetastól, að þingið á að starfa allt árið til að hægt sé að taka á þessu með eðlilegum hætti og að þannig sé haldið á málum gagnvart fjárlaganefnd að hún fái það til umsagnar þegar verið er að ráðast í slík viðbótarútgjöld en sé ekki bara kynnt þetta eftir að ríkisstjórnin hefur samþykkt viðbótarútgjöld umfram fjárlög. Ég hef áhyggjur af þessu, virðulegi forseti.

Eftir því sem ég hef skoðað fjárlög næsta árs stefnir í að það ár verði ekkert betra en það sem við erum að tala um nú. Við sjáum hér mjög mismunandi hagvaxtarspár og mjög mismunandi verðbólguspár fyrir næsta ár þannig að munar verulegu. Ég lét t.d. athuga það fyrir mig, af því að við erum með ýmsa aðila sem spá um slíkt, t.d. greiningardeildir bankanna, Seðlabankann, fjármálaráðuneytið og ASÍ, hvernig þessar hagvaxtarspár hefðu gengið eftir og verðbólguspár miðað við árið 2004. Það er t.d. áhugavert að skoða hvernig hagvaxtarspár fjármálaráðuneytisins gengu eftir á árinu 2004 og hvernig verðbólguspáin fyrir sama ár gekk eftir. Fjármálaráðuneytið spáði hagvexti upp á 3,5% en áætlun Hagstofunnar nú er að hagvöxtur fyrir árið 2004 hafi verið 5,2%. Ef við skoðum verðlagsbreytingarnar, sem skipta auðvitað miklu máli um allar forsendur fjárlaga, var verðbólguspá ráðuneytisins 2,5% en raunin varð 3,2%, samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni. Þannig munaði 0,7% á verðbólguspánni.

Aðilar sem spáðu fyrir um hagvöxt og verðbólgu á þessum tíma voru margir hverjir miklu nær því sem raunverulega varð. ASÍ spáði hagvexti sem var mjög nálægt því sem raunin varð. Sama gildir um verðbólguna. Af því að verið er að fjalla um fjárlög næsta árs sjáum við þegar hagvaxtarspáin er skoðuð að fjármálaráðuneytið er með hagvöxt upp á 4,6% í spá sinni fyrir 2006, Landsbankinn 7,3% og Seðlabankinn, svo ég taki bara sem dæmi, er með 6,7% í hagvaxtarspánni. Það munar verulega t.d. á næsta ári í verðbólguspá ASÍ og Seðlabankans, en verðbólguspá fjármálaráðuneytisins, eins og hún var í október, og vera má að ráðuneytið breyti því eitthvað við lokaafgreiðslu fjárlaga nú, er 3,8% en spá ASÍ er upp á 4,2% að mig minnir. Ég held að ég fari rétt með það. Það munar auðvitað miklu í öllum verðlagsforsendum þegar slíkur mismunur er á spánni.

Það er ástæða er til að nefna, og við sjáum það líka í því nefndaráliti sem ég er með fyrir framan mig frá 1. minni hluta fjárlaganefndar, að verulegur munur er á því hver spáin var í einkaneyslunni fyrir árið 2005 og hver er áætluð niðurstaða 2005. Fjárlögin gerðu ráð fyrir 5% í einkaneyslunni en áætluð niðurstaða er 9,5%. Þetta þýðir auðvitað gífurlegt vanmat í tekjuspánni. Svipað er upp á teningnum, virðulegi forseti, hvað varðar næsta ár, að þar sé vanmat í tekjum. Þegar einkaneyslan er skoðuð og borin saman við spá fjármálaráðuneytisins og spá Seðlabankans þá spáir ráðuneytið 4,3% en Seðlabankinn 8,2%. Inni í þessari einkaneyslu eru m.a. bílar þar sem verulegur hluti af verði bílsins, þegar hann er endanlega kominn á götuna, fer í ríkissjóð. Þetta er greinilega vanáætlun upp á milljarða ef taka á mark á t.d. einkaneysluspá Seðlabankans á móti því sem fjármálaráðuneytið áætlar.

Ég spyr: Er fjármálaráðuneytið af ásettu ráði með vanmat í spá til þess að þurfa ekki að sýna raunverulegar tölur? Þegar horft er á fjárlögin, á síðasta ári og á árinu þar áður, annars vegar og svo raunveruleikann virðist a.m.k. ekki skrýtið að menn geti sér þess til að eitthvað mikið sé að. Við getum líka skoðað árið 2006. Við fjölluðum um það í efnahags- og viðskiptanefnd í morgun að það sé alveg ljóst að Seðlabankinn er ekki sáttur við þær aðferðir sem fjármálaráðuneytið beitir, t.d. varðandi árið 2006. Þar er talað um að gengið muni veikjast og verðbólgan fara yfir verðbólgumarkmið Seðlabankans og samt er spá fjármálaráðuneytisins á þann veg að vextir eigi að lækka. Fulltrúar Seðlabankans spurðu m.a. að því í morgun hvernig það ætti að geta gengið upp í 4% verðbólgu, sem er 1,5% yfir verðbólgumarkmiði, að fjármálaráðuneytið spái því að vextir eigi samt eftir að lækka á næsta ári.

Virðulegi forseti. Mörgum spurningum er ósvarað þegar við ræðum um fjáraukalög fyrir þetta ár og áformin á næsta ári. Ég er að reyna að sýna fram á, virðulegi forseti, að það eru vafaatriði uppi að því er varðar ýmsar forsendur fjárlaga fyrir næsta ár. Þegar við lítum á fjárlögin árið 2005, hver áætlunin var í september og hver áætlunin er nú í nóvember, tveimur mánuðum seinna, hverju munar þá í tekjum, virðulegi forseti? Bara frá september 2005 til nóvember 2005 munar 10 milljörðum í tekjum, sem ríkissjóður á að fá meira í tekjur á tveggja mánaða tímabili.

Frumvarpið til fjárlaga gerði ráð fyrir 10 milljarða afgangi á þessu ári. Síðan kemur spá upp á um 29 milljarða kr., minnir mig, og nú eru þeir komnir upp í 43 milljarða kr. Hvernig er hægt að vinna við svona aðstæður, virðulegi forseti? Allar spár eru misvísandi út og suður, vanáætlanir hér og þar og ekkert að reiða sig á. Það er ekki ofsagt, virðulegi forseti, að mikil lausatök eru á öllum þessum málum. Ég kom kannski sérstaklega upp, ég lagðist aðeins yfir þetta í morgun, af því að það er nýr ráðherra fjármála í stólnum og ég vildi heyra afstöðu hans til þess hvort ekki sé ástæða til að breyta um vinnubrögð frá því sem gert hefur verið. Hér eru reiddar fram tölur upp á 119 milljarða kr. í útgjöld á fimm ára tímabili umfram það sem fjárlög gera ráð fyrir eða 10% frávik.

Telur ráðherra það eðlilegt? Getur ráðherra upplýst um það hvort það sé svo hjá kollegum hans á hinum Norðurlöndunum að fjárlagavaldið hafi í svo miklum mæli færst yfir til framkvæmdarvaldsins, eins og raun ber vitni?

Ég hef af þessu áhyggjur, virðulegi forseti. Ég vona að svo sé um fleiri. Það væri fróðlegt að heyra afstöðu ráðherrans til þeirra vanáætlana sem hér koma fram, heyra hvort ráðherrann telur haldið um fjárlögin í samræmi við ákvæði fjárreiðulaga og hvort ráðherra hafi hugmyndir um að endurskoða þau vinnubrögð sem við á þinginu höfum þurft að búa við varðandi fjárlög og fjáraukalög. Það er tími til kominn, virðulegi forseti. Það er til vansa fyrir þingið að þurfa að taka á móti fjárlagafrumvarpinu sem er í raun ekki annað en blekking frá upphafi til enda. Þingið er haft að leiksoppi með því að láta það fjalla um marklaus plögg.

Það er eins og menn læri aldrei neitt á þessu heldur virðist þetta versna ár frá ári. Ég bind vonir við að nýr hæstv. fjármálaráðherra hafi vilja til að beita öðrum vinnubrögðum og virða það að þingið hefur fjárlagavaldið en ekki framkvæmdarvaldið og við getum fjallað um fjárlög sem væru meira í takt við raunveruleikann en það sem við höfum búið við á undaförnum árum.