132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[17:51]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er sjálfsagt að fara ofan í þau mál og velta því upp hvað skýrir þau frávik. Ekki ætla ég að víkja mér neitt undan því. En ég er hins vegar ekki alveg tilbúinn að staðfesta hér og nú þær tölur sem hv. þingmaður var með, hvort þær séu réttar eða ekki. Mig hálfpartinn grunar að það séu tölur þar sem ekki hefur verið tekið tillit til óreglulegra gjalda, þ.e. skattaafskrifta, óreglulegra tekna eða óreglulegra gjalda eins og framlaga til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Það þarf náttúrlega að bera saman epli og epli og appelsínur og appelsínur en ekki epli og appelsínur til að fá réttu útkomuna, ég er sannfærður um að hv. þingmaður er sammála mér um það og á þeim forsendum er auðvitað sjálfsagt að fara ítarlega í gegnum þessi mál á hv. Alþingi.