132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Samkomudagur Alþingis og starfstími þess.

48. mál
[18:18]
Hlusta

Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um samkomudag Alþingis og starfstíma þess.

Frumvarpið fjallar um að samkomudagur reglulegs Alþingis skuli vera 15. september ár hvert og að reglulegum störfum Alþingis skuli ljúka 15. júní.

Virðulegi forseti. Ég er bjartsýnni en áður á að viðverutími Alþingis verði tekinn til endurskoðunar og vísa þá til ræðu forseta Alþingis við setningu Alþingis 1. október í haust. Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis, fjallaði um það við þingsetningu að hún vildi gjarnan skoða starfstíma Alþingis og taka þátt í því að fram fari endurskoðun á þingsköpum. Ræðu hennar var vel tekið innan þings og utan.

Bryndís Hlöðversdóttir og Margrét Frímannsdóttir hafa verið meðflutningsmenn mínir í þessu máli en það hefur verið flutt tvisvar sinnum. Bryndís hefur nú vikið af þingi en Margrét Frímannsdóttir er flutningsmaður með mér að þessu máli. Það er ekki tilviljun, virðulegi forseti, að við þrjár höfum staðið að þessu, við höfum allar verið eða erum þingflokksformenn í flokki okkar, Samfylkingunni, og þekkjum því afar vel hvernig starfstími Alþingis hefur verið og hvernig hefði verið unnt að skipuleggja þinghaldið ef málum væri öðruvísi skipað. Við þekkjum annmarkana á því fyrirkomulagi sem hér hefur viðgengist undanfarin ár í störfum Alþingis.

Frumvarpið hefur verið flutt tvisvar og eigi verið útrætt og við erum sammála um að mikilvægt sé að halda áfram að hreyfa þessu máli og sýna fram á að starfsfyrirkomulagið eins og það er í dag er úrelt og að þörf er á breyttum vinnubrögðum og annarri vinnutilhögun á Alþingi.

Ég legg mikla áherslu á það, virðulegi forseti, að þinghaldið síðustu missiri undirstrikar nauðsyn þess að gera gjörbreytingar á störfum Alþingis. Við höfum vanist því að þing komi saman 1. október og ljúki í byrjun maí. Því er ekki að leyna að undir lok þinghaldsins kemur mikil pressa bæði á framlagningu stjórnarmála og afgreiðslu þeirra fyrir vorið. Ég minni á fjölmiðlafrumvarpið svokallaða sem kom seint fram á síðasta þingi og varð til þess að þinginu var fram haldið með hléum alveg fram í júlí.

Í frumvarpi okkar felst að Alþingi komi saman 15. september og sitji til 15. júní. Það þingtímabil sem við höfum vanist er afskaplega stutt miðað við þau miklu verkefni sem Alþingi fæst við nú á dögum. Það hafa oft verið miklar umræður um fjölda þingmannamála, það er oft óskað eftir því að við setjum mörg mál á dagskrá, tölum stutt, jafnvel bara flutningsmaður, og það hefur gerst að allt að 37 þingmannamál hafi verið sett á dagskrá á einum og sama deginum af því að nýta þurfti dagana í lokin fyrir stjórnarfrumvörpin sem afgreiða átti fyrir vorið.

Síðasta vetur hófum við þingtímann 1. október og vorum að störfum til 10. desember. Jólahlé var frá 10. desember til 24. janúar og þá tókum við til við þingstörfin aftur til 11. maí. Það fóru sem sé 44 dagar í jólahlé og síðan tókum við 142 daga í sumarhlé. Ég undirstrika að ég er hér ekki að tala um sumarleyfi eða jólafrí en Alþingi fjallar ekki um stjórnvaldsaðgerðir eða veitir ríkistjórninni aðhald í 186 daga af 365 eða meira en helming ársins sé litið til þess árs sem liðið er. Það er óviðunandi, virðulegi forseti.

Lengdur starfstími er grunnur að breytingum og nýjum starfsháttum þingsins. Verði frumvarpið að lögum mun forsætisnefnd endurskoða starfsáætlun þingsins og ég sé það fyrir mér að skoðað verði hvað hefur reynst vel í skipulagi hjá öðrum þingum og hvað þróun þingstarfa kallar helst á varðandi breytingar.

Hér fyrir hálfri stundu eða um það bil fóru fram orðaskipti á milli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og hæstv. fjármálaráðherra Árna M. Mathiesen og þar var verið að fjalla um frammúrkeyrslu ríkisins og hugsanlegt eftirlit eða breytingar á vinnubrögðum Alþingis til þess að komast út úr þessu fyrirkomulagi. Hæstv. fjármálaráðherra taldi að það skipti ekki sköpum hvort breytingar yrðu á viðveru þingsins. Ég er því mjög ósammála. Það er alveg ljóst að ef Alþingi er lengur að störfum og tekur styttri hlé skapast grundvöllur fyrir því að Alþingi fái oftar yfirlit yfir ástand stofnana og geti t.d. falið undirstofnun sinni, Ríkisendurskoðun, að skoða hver staðan sé í ríkisfjármálunum og fá um það upplýsingar oftar yfir árið. Eins og nú er koma fjáraukalög inn á haustin þar sem farið er yfir hvað ekki stóðst og þarf að ganga frá aukafjárveitingum vegna þessa.

Alþingismenn njóta fullra launa allt árið og þingmennska er fullt starf þeirra allra. Áður fyrr fengu alþingismenn dagpeninga fyrir þann tíma sem Alþingi starfaði og það var jafnframt svo um þorra alþingismanna að þeir gegndu öðrum störfum samhliða þingmennsku. Starfstími Alþingis var eigi að síður sá sami og hann er nú, þ.e. frá því í október og fram í maí. Hefur svo verið í meginatriðum frá stríðslokum. Í seinni tíð hafa breytingar orðið á starfskjörum alþingismanna sem taka mið af auknum verkefnum þeirra og alþingismenn hafa notið fastra launa allt frá árinu 1964. Frá því um 1970 hafa stöðugt færri alþingismenn gegnt öðrum störfum samhliða þingmennsku. Því má segja að starfstími Alþingis hafi ekki fylgt þeim breytingum sem annars hafa orðið á starfskjörum og starfsháttum alþingismanna.

Á haustin er tekin ein vika í þinghlé hér á Alþingi og í þessari einu viku fara þingmenn í kjördæmin, halda fundi eða gera eitthvað annað mikilvægt. Ef starfstímanum væri breytt, eins og hér er lagt til, þannig að starfað væri lengur að vetrinum væri hægt að hafa starfsáætlunina öðruvísi, hafa oftar hlé, oftar kjördæmavikur eða kjördæmadaga eða gefa meira svigrúm til að fara yfir skýrslur eða vinna að frumvörpum á þeim tíma sem Alþingi starfar. Á Íslandi kemur þing saman fyrsta virka dag eftir 1. október, eins og fyrr segir, og hefur hingað til staðið fram í byrjun maí eða miðjan maí, síðustu árin aðeins fram á fyrstu daga maímánaðar. Við leggjum til að byrjað verði 15. september og þingstörfum haldið áfram fram undir þjóðhátíðardaginn 17. júní.

Í Noregi stendur þingtími frá septemberlokum til u.þ.b. 20. júní, í Svíþjóð frá 16. september til 17. júní, í Danmörku frá fyrsta þriðjudegi í október til 5. júní og í Finnlandi frá fyrsta þriðjudegi í september til u.þ.b. 20. júní. Algengt er að jólahlé sé tvær, hámark þrjár vikur. Í Noregi er það t.d. um 14 dagar og um páska er svipað hlé.

Eins og fyrr segir njóta alþingismenn á Íslandi fullra launa allt árið enda er þingmennska fullt starf, en starfstími Alþingis hefur ekki breyst, hann er frá október og fram í maí. Það er mjög mikilvægt að gera breytingar í samræmi við starfsvettvang alþingismanna og taka mið af þeim breytingum á starfskjörum sem hafa orðið frá því u.þ.b. árið 1970. Í heild viljum við flutningsmenn gefa þinginu rýmri tíma til að fjalla um mál, ekki síst nefndum þingsins, og við viljum að komi þingmál seint fram séu það ekki rök fyrir því að þrýsta því í gegnum þingið fyrir vorið að sumarhléið sé langt. Hafi ráðherra ekki unnið að máli þannig að það komi tímanlega fram þá er ekki hægt að koma inn í þingið, jafnvel fá mál á dagskrá með afbrigðum og ætlast til að það sé afgreitt á engum tíma. Þegar sumarhlé er orðið styttra verða menn að horfast í augu við að það sem ekki er afgreitt fyrir vorið verði tekið upp aftur að sumarhléi loknu enda er það þá ekki svo langur tími.

Það er líka afar slæmt, herra forseti, hve lítill tími gefst oft til að skoða stjórnarfrumvörp áður en þau eru tekin á dagskrá og reynslan sýnir að þegar loksins kemur að nefndardögum þarf nefndarformaður að keyra yfirferðina áfram, oft til mikils vansa fyrir þingið og gagnvart því fólki sem kemur á nefndarfundi, jafnvel utan af landi, til að fjalla um og varpa ljósi á þau mál sem eru til umfjöllunar hverju sinni. Það er ekki óalgengt að heyrst hafi frá fulltrúum okkar í efnahags- og viðskiptanefnd að ekki hafi verið sæmandi þegar fólk hefur komið, kannski tíu til tuttugu manns, út af einu máli, kallað utan af landi eða úr dagsins önnum, og þarf síðan að bíða jafnvel klukkustund eftir að komast inn á fund nefndarinnar þar sem svo er rokið í gegnum málin, jafnvel á fáum mínútum, og lítið fjallað um það sem fram kom. Þessi vinnubrögð eru ekki Alþingi sæmandi og aðeins með því að breyta starfsáætlunum, komast út úr þessum álagspunktum, getum við tekið upp faglegri vinnubrögð og heillavænlegri.

Ekki eru komin fram mjög mörg stjórnarfrumvörp nú tæpum einum og hálfum mánuði eftir þingbyrjun. Ekki er hægt að verjast þeirri hugsun að það sé ekki fyrr en u.þ.b. sem þing kemur saman sem ráðuneytin fara að haska sér í að ganga frá frumvörpum eða lokayfirferð á þeim í ráðuneytinu. Þegar þau svo koma inn örfáum dögum áður en nefndardagar hefjast, eins og raun ber vitni núna, gefst ekki tími til að senda þau út til umsagnar og skoða þær á þann hátt sem æskilegt er og fá síðan fólk til fundar við nefndina til að fylgja umsögnunum eftir. Þetta er ekki ásættanlegt. Búast má við að á næstu tveimur vikum verði mjög mörg stjórnarfrumvörp á dagskrá og að þau nái ekki þeirri vinnu sem hugsuð var á nefndadögunum 30. nóvember og 2. og 3. desember. Það setur líka dagskrá þingsins í uppnám.

Ég er alveg sannfærð um að lengri viðvera þingmanna á Alþingi muni líka venja ráðherra og ráðuneyti á öðruvísi vinnubrögð, enda þarf aga til að fólk gangi í verkin eins og hér er lýst. Ég ætlast að sjálfsögðu til þess að ef við tökum upp betri og faglegri vinnubrögð, breytum starfsháttum þingsins og tökum upp öðruvísi vinnulag verði þingmannamálunum gerð betri skil. Ástæða er til að nefna það líka, af því að kjördæmavikan er nýrri tíma mál, að það hefur verið gott að fá slíka yfirferð en það er líka talsvert þröngur tími, ekki síst eftir þær breytingar sem gerðar voru á kjördæmaskipaninni. Kjördæmin eru orðin gífurlega stór og eru allt annars eðlis en þegar þessi eina kjördæmavika var tekin upp. Þingmönnum stóru kjördæmanna er þröngur stakkur sniðinn að hafa samkvæmt starfsáætlun aðeins þessa einu viku til að fara út í kjördæmin. Ef við værum með fleiri slíkar vikur yfir veturinn væri starfið í stóru kjördæmunum liprara og þingmönnum væri mögulegt að koma betur til móts við kjósendur sína. Það hefur reynst frekar óheppilegt að reyna að hafa alla þessa vinnu í janúar, þyngsta vetrarmánuðinum, og sumrin eru ekki endilega heppilegasti tíminn til að hitta fólk. Þetta þarf allt að raðast niður með besta móti og það getum við gert ef við endurskoðum starfsáætlun þingsins.

Virðulegi forseti. Ég hef drepið hér á það helsta sem máli skiptir varðandi það að breyta starfsáætlun Alþingis og að mikilvægt sé að dreifa þingfundum á lengri tíma yfir veturinn og skipuleggja störf þingsins upp á nýtt.

Ég vil sérstaklega árétta að það eru engin sérstök rök fyrir því að Alþingi skammti sér svo nauman tíma sem raun ber vitni til að fjalla um og afgreiða liðlega 100 frumvörp. Það er sá fjöldi frumvarpa sem yfirleitt hefur komið fram á hverjum þingvetri og 20–30 ályktanir sem venjan hefur verið hingað til. Auðvitað eigum við að breyta fyrirkomulaginu og gefa okkur betri tíma til umfjöllunar.

Virðulegi forseti. Ég get líka bent á bættar samgöngur, fjarskiptaþróunina, tölvuvæðinguna, allt það sem gjörbreytt hefur allri vinnutilhögun þingmanna. Ég vil líka nefna að oft heyrast gagnrýnisraddir hjá almenningi sem finnst hið langa sumarhlé Alþingis á skjön við starfsfyrirkomulag annarra stétta. Sú umræða er orðin áberandi neikvæð. Ég er ávallt manna fyrst til að benda á að sumarhlé er ekki sumarleyfi þingmanna því að þingmenn eru að störfum, en því er ekki að leyna að þessi starfsáætlun og fyrirkomulag gerir það að verkum að fólk álítur að þingið sé sent heim.

Eins og fram hefur komið eru þingmenn í burtu hálft árið og óþolandi er að það sé litið svo á að þingmenn séu í fríi hálft árið. Það að þessu hefur verið komið inn hjá þjóðinni er okkur sjálfum að kenna. Ég vil líka taka fram af því að oft er sagt að í stað þess að hafa starfsáætlunina öðruvísi og vera með lengri viðveru og öðruvísi starfshætti sé þetta eins konar vertíðarvinna. Það er heldur ekki sæmandi fyrir fjölskyldufólk að það sé dögum saman þannig fram eftir hausti að fólk sé hér að fram að og fram yfir kvöldmat af því að ekki tekst að afgreiða mál. Það er líka oftast þannig að það eru aðeins þeir þingmenn sem eiga málin eða eru í viðkomandi nefndum sem eru á vettvangi þegar svo er komið. Það á að vera þannig að fjölskyldufólk af öllu tagi geti tekið þátt í störfum Alþingis og að hægt sé að lifa þokkalegu fjölskyldulífi samhliða því að vera þingmaður.

Það á að vera hægt með því að skipuleggja starfið öðruvísi þó að ég geri mér mjög vel grein fyrir því að störf þingmanna munu ávallt hafa álagspunkta og að þingmaður verður að vera tilbúinn til þess að sinna verkum á ólíkum tímum. Þetta er orðin frekar föst hefð hjá okkur fremur en sérstök undantekningartilvik. Stundum er líka eins og ríkisstjórnin bíði eftir því að sú stund renni upp að þingið sé sent heim og ríkisstjórnin fái frið fyrir okkur og geti sinnt verkefnum sínum án afskipta þingsins. Það er úrelt hugsun og þetta eru úrelt vinnubrögð.

Við eigum að láta þingið starfa eins og unnt er allt árið. Við eigum að stytta sumarhlé, stytta jóla- og páskahlé ef okkur sýnist svo og gera oftar hlé á hefðbundnum þingfundum til að hið fjölbreytta starf þingmannsins fái notið sín. Við eigum alltaf að hafa það með í veganesti að við erum ekki bara hér til að vinna með löggjöf. Alþingi er mjög mikilvægur vettvangur skoðanaskipta, Alþingi er mjög mikilvægur vettvangur þjóðfélagsumræðu og Alþingi ber að sýna stjórnvöldum aðhald. Það gerum við miklu verr þegar við erum hálft árið utan þinghússins.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu og framsögu um samkomudag Alþingis og starfstíma þess.