132. löggjafarþing — 22. fundur,  16. nóv. 2005.

Framlagning stjórnarfrumvarpa.

[12:04]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins til að vekja athygli á því hvernig staða mála er í þinginu nú þegar sjö vikur eru liðnar af þessu þingi og þrjár vikur eftir fram að jólaleyfi eða 10 almennir þingdagar. Við þessar aðstæður standa mál þannig að ef frá eru talin fjárlögin og EES-mál sem koma hér allt að því til sjálfkrafa afgreiðslu hefur verið mælt fyrir sjö stjórnarfrumvörpum. Það eru sjö stjórnarfrumvörp sem eru komin til nefndar.

Mér finnst þetta, virðulegur forseti, bera vott um að annaðhvort sé ríkisstjórnin svo verklítil að hún geti ekki klárað mál inni í ráðuneytunum og komið þeim fram í þinginu eða þá hitt að menn geti ekki komið sér saman í stjórnarflokkunum og að stífla sé í þingflokkunum, þar sitji mál og komist ekki inn vegna þess að hver höndin sé upp á móti annarri.

Við höfum heyrt ráðherra tala um það í fjölmiðlum að þeir ætli að klára eitthvert tiltekið mál fyrir jól. Menntamálaráðherra talar um frumvarp um ríkisútvarp, félagsmálaráðherra um frumvarp um starfsmannaleigur og fleiri slík mál höfum við heyrt nefnd. En þessi mál eru ekki komin inn í þingið, hafa ekki komið til umræðu. Ég minni líka á, hæstv. forseti, að stefnuræðu forsætisráðherra í haust fylgdi mjög langur málalisti þar sem komu fram þau svið sem menn ætluðu að fjalla um í þinginu og leggja fram frumvörp um og ég held að þar hafi nánast enginn málaflokkur verið undanskilinn. En þessi mál hljóta að verða að fara að líta dagsins ljós í þinginu ef menn eiga ekki að lenda, eins og venjulega, í þeirri skipulegu kaos sem hér er fyrir jólaleyfi. Það er auðvitað hvorki þingi né þjóð sæmandi að vinna með þeim hætti.