132. löggjafarþing — 22. fundur,  16. nóv. 2005.

Framlagning stjórnarfrumvarpa.

[12:12]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Mig langar að segja að fyrir mitt leyti hef ég engar sérstakar áhyggjur þó að það komi ekki fleiri mál frá ríkisstjórninni inn í þingið og betur væri að mörg þeirra mála sem hafa komið inn hefðu ekki gert það. Ég er því alls ekki sammála hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur að það eigi að reka á eftir ríkisstjórninni að vera að leggja fram hvert vitlausa frumvarpið á fætur öðru. Það er eðlilegt að afgreiða fjárlögin, það er sjálfsagt að taka mál sem lúta að þeim kjarasamningum sem við höfum verið að gera og er eðlilegt að komi inn til þingsins.

En ég bendi á að það liggja mörg góð þingmannamál fyrir sem hefur verið mælt fyrir og eru í nefndum og væri kannski bara góð tilbreyting að taka þau núna rækilega fyrir og leyfa þessum frumvörpum ríkisstjórnarinnar sem fæst eru til góðs að liggja þar sem þau eru. Ég mæli eindregið með því, frú forseti, að við höldum starfsáætlun okkar og leyfum ríkisstjórninni að liggja á sínum frumvörpum.