132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Útgáfa talnaefnis um umhverfismál.

263. mál
[12:54]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Að því er varðar fyrri lið fyrirspurnarinnar vil ég segja: Á Hagstofunni var skipulega farið að safna tölulegum upplýsingum um umhverfismál árið 1993 og hefur síðan verið unnið að því verkefni í samvinnu við umhverfisráðuneytið og ýmsar fagstofnanir sem sjá um eftirlit og mælingar á sviði umhverfismála. Útgáfa ritsins Umhverfistölur Íslands og Evrópu árið 1997 og síðan bæklingsins Umhverfistölur 1997, sem kom út árið eftir, var hugsuð til að vekja athygli á úrvinnslu og tilvist þessara talna meðal almennings og þeirra sem láta í té gögn til umhverfisskýrslna.

Hagstofan hefur frá árinu 1994 birt tölur um umhverfismál í árbók sinni, Landshögum, sem einnig hefur komið út á rafrænu formi og hefur verið birt á vef Hagstofunnar og hefur það efni vaxið ár frá ári. Hagstofan breytti útgáfustefnu sinni á árinu 2004. Frá þeim tíma er lögð megináhersla á birtingu talnaefnis á vef Hagstofunnar. Mánaðarritið Hagtíðindi var þá fellt niður en upp tekin ný ritröð með sama heiti. Þessi rit eru gefin út á vef Hagstofunnar en auk þess má fá ritröðina eða einstaka efnisflokka hennar í áskrift á prenti. Nú er unnið að því að taka saman rit um umhverfismál í þessari ritröð og er það væntanlegt á næsta ári.

Að því er varðar annan lið fyrirspurnarinnar er rétt að endurtaka að Hagstofan hóf talnasöfnun um umhverfismál á árinu 1993 og byrjaði að birta það efni ári síðar. Frá þeim tíma hefur verið unnið sleitulaust að söfnun og miðlun þessa efnis. Hagstofan safnar ekki frumgögnum á þessu sviði heldur hefur hún samvinnu við sérfræðistofnanir um efni, skipulag og útvegun umhverfistalna. Þetta efni hefur verið birt innan lands í Landshögum, bæði á prenti og á rafrænu formi, og í gagnasafni Hagstofunnar á vefnum. Þá hefur Hagstofan annast miðlun þessa efnis til alþjóðastofnana, einkum OECD, Hagstofu Evrópusambandsins og Sameinuðu þjóðanna, og hafa umhverfistölur um Ísland birst í gagnasöfnum og ritum þeirra. Á norrænum vettvangi hefur þetta efni einkum birst í Norrænu tölfræðiárbókinni. Þess má geta að Landshagir 2005 hafa að geyma 15 töflur í kafla um land og umhverfi auk ýmissa annarra taflna sem varða umhverfismál í öðrum köflum árbókarinnar, svo sem um orkumál, landbúnað og fleira.

Hagstofan heldur því þegar úti reglulegri skýrslugjöf á þessu sviði. Vinnu sérfræðistofnana við að taka saman og veita reglubundnar talnaupplýsingar hefur fleygt fram og talnaefni vaxið bæði að magni og gæðum. Hins vegar er ljóst að nauðsynlegt er að gera enn betur og eru ýmis áform uppi um það. Á þessu sviði er e.t.v. áleitnast að taka saman efni sem gerir kleift að setja umhverfisþætti í efnahagslegt samhengi. Að því er m.a. stefnt í hagsýslustarfsemi EES-ríkja. En enda þótt þessu megi fagna sem slíku er ljóst að stofnanir okkar hafa takmarkað bolmagn til mikilla verka á þessu sviði, a.m.k. enn sem komið er.