132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Háhraðanettengingar.

117. mál
[13:34]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni fyrir þessa fyrirspurn. Þar var í engu ofsagt um þá brýnu þörf sem er á tryggri tengingu við dreifbýli landsins og góðum hraða. Auk þess vil ég benda á það að háhraðatenging er mjög mikilvæg fyrir ýmsa vegna starfa sinna, t.d. bændur. Bændur eru farnir að nýta sér bókhald sem byggist á háhraðatengingum í auknum mæli og auk þess er ferðaþjónusta bænda vaxandi atvinnugrein og þeir nýta sér m.a. netið til þess að kynna þjónustu sína. Það á að vera hægt að panta sér þá þjónustu í gegnum netið en það er því miður víða illmögulegt eða ótryggt og jafnvel ekki hægt vegna þess hve tengingar eru lélegar og víða ekki fyrir hendi.