132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Háhraðanettengingar.

117. mál
[13:43]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég fagna viðbrögðum hv. þingmanna við þessari fyrirspurn og svörum mínum. Það er alveg ljóst að menn átta sig á því að fjarskiptaáætlunin sem ég lagði fram og Alþingi samþykkti markar hér mikil tímamót, þau áform sem þar eru og ákvörðun ríkisstjórnarinnar að leggja 2,5 milljarða af símasölunni til þess að byggja upp fjarskiptin í landinu.

Eitt af markmiðum í fjarskiptaáætluninni lýtur að háhraðatengingum ríkisstofnana sem er ástæða til að vekja athygli á. En öflugar tengingar ríkisstofnana, sérstaklega á landsbyggðinni eru mjög mikilvægur grundvöllur fyrir frekari þjónustu í sveitarfélögunum þegar háhraðatengingarnar eru komnar inn í miðju sveitarfélaganna þar sem ríkisstofnanir eru og þar með geta fyrirtæki og einstaklingar nýtt sér þá uppbyggingu.

Þegar er hafið samstarf við fjármálaráðuneytið og önnur ráðuneyti um framkvæmd þessara markmiða og samgönguráðuneytið hefur talið að ein leið til að ná árangri í þessu sé útboð á allri fjarskiptaþjónustu eða öllum fjarskiptatengingum og þjónustu við ríkisstofnanir sem nýta háhraðatengingar. Ég tel að það sé mikilvæg leið til að ná markmiðum okkar, að útvíkka þannig háhraðanetið, auka hraðann í samræmi við markmið fjarskiptaáætlunarinnar, auka samkeppni, bæta þjónustu og lækka verðið. Ég tel að með því að bjóða út alla fjarskiptaþjónustu ríkisins skapist skilyrði til þess að ríkisstofnanirnar tengist og þar með aukist áhugi fjarskiptafyrirtækjanna á því að veita almenningi á þessum stöðum þessa þjónustu sem ég tel afar mikilvæga.