132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Veggjöld.

150. mál
[14:00]
Hlusta

Halldór Blöndal (S):

Frú forseti. Þegar lagt var í Hvalfjarðargöng vantaði ekki heitstrengingar manna úr öllum flokkum að staðið yrði við það að greiða vegskatt af þeim göngum. Hv. þm. Jóhann Ársælsson og fleiri stigu þá á stokk og strengdu þess heit.

Það sem er aðalatriðið í dag er auðvitað að einkaframkvæmd í samgöngumálum opnar möguleika víðs vegar um landið til þess að flýta mikilvægum framkvæmdum sem ella yrði ekki í ráðist. Ég nefni Vaðlaheiðargöng, ég get líka nefnt veg um Stórasand. Ég vil einnig minna á að stofnað hefur verið félag um að leggja veg um Kjöl og þannig mætti halda áfram ræðunni. Ég hygg að hv. þingmönnum sé jafnframt ljóst að í öðrum löndum er hvarvetna notast við veggjöld sem nauðsynlegt er til að koma af stað nauðsynlegum framkvæmdum í samgöngumálum. Við eigum ekki að hopa af vegi á okkar leið í þessu efni sem öðrum. Ef horfið verður frá veggjöldum í Hvalfirði er með því verið að leggja stein í götu manna annars staðar á landinu sem vilja bæta samgöngur eins og Norðlendingar svo dæmi sé tekið, eins og Borgfirðingar sem auðvitað vilja veg um Stórasand eins og ég hef gert glögga grein fyrir á Alþingi.