132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Veggjöld.

150. mál
[14:03]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég fagna ákaflega mikilvægri yfirlýsingu hæstv. samgönguráðherra um að ekki verði veggjöld á Sundabraut. Það er mjög mikilvægt að ekki verði veggjöld á Sundabraut. Hann getur svo fundið út einhverjar aðrar leiðir. Ég hélt að það væru innri leið og ytri leið en nú er komin skuggagjaldaleið og ýmsar leiðir í viðbót á þeim vegi. En það mikilvægasta er: Engin veggjöld.

Menn verða að gera sér grein fyrir því að veggjöldin í Hvalfjarðargöngunum voru sett sem ákveðin málamiðlun. Fulltrúar þeirra svæða sem þar áttu hlut að máli, höfuðborgarsvæðisins, sem tekur yfir meira en helming af þjóðinni og þeirra svæða sem það tengdist við, voru í minni hluta hér á þinginu og máttu búa við það að neytt hafi verið aflsmunar í samgöngumálum gegn þeim í marga tugi ára. Þess vegna féllust menn á þá framkvæmd með því fororði að hún yrði borguð. Ég tel að núna sé grundvöllurinn undan því fallinn og við eigum að semja upp á nýtt við eigendur, getum við kallað þá, Hvalfjarðarganga og taka þá upp þar skuggagjaldakerfi ráðherrans í staðinn fyrir að íbúar á þessu svæði þurfi að borga fyrir að keyra í gegnum eigin göng.