132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Herflugvélar yfir Reykjavík.

202. mál
[14:29]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Mörður Árnason spyr:

„1. Hafa stjórnvöld brugðist með einhverjum hætti við hávaðaflugi fjögurra breskra herflugvéla fyrir lendingu á Reykjavíkurflugvelli 16. september síðastliðinn, og þá hverjum?“

Vegna þessarar fyrirspurnar leitaði ráðuneytið upplýsinga hjá Flugmálastjórn um málið. Þar fengust þau svör að Flugmálastjórn hefði stofnað sérstakan vinnuhóp til að endurskoða verklagsreglur um komu erlendra þotna til flugvallarins, m.a. hvort takmarka eigi slíkt flug við alger undantekningartilvik.

Afstaða Flugmálastjórnar kemur fram í svari til ráðuneytisins, þ.e. að almennt verði að telja óæskilegt að herþotur lendi á Reykjavíkurflugvelli. Það er best að það komi fram. Það var hins vegar óhjákvæmilegt þann 16. september síðastliðinn vegna aðstæðna. Svo mikil þoka var að ekki var annarra kosta völ. Ljóst er að þoturnar sem lentu á flugvellinum í september hafa hærra en leyft er á Reykjavíkurflugvelli en þar var um undantekningartilvik að ræða og ég get ekki ímyndað mér að sé hægt væri að gera kröfu um sérstaka afsökunarbeiðni vegna þess að flugvélar neyðist til að lenda á flugvellinum.

Í annan stað er spurt:

„2. Má eiga von á frekara lágflugi herflugsveita yfir miðborg Reykjavíkur og íbúðasvæðin umhverfis?“

Eins og fyrr segir hefur verið stofnaður sérstakur vinnuhópur á vegum Flugmálastjórnar til að fara yfir og endurskoða reglur verðandi lágflug hersveita við Reykjavíkurflugvöll og lendingar þeirra á Reykjavíkurflugvelli. Það er ljóst að Reykjavíkurflugvöllur gegnir mjög mikilvægu hlutverki, bæði vegna innanlandsflugsins og eins er hann varaflugvöllur og nýtist sem slíkur vegna Keflavíkurflugvallar. Það sýnir betur en margt annað hversu mikilvægt er að hafa flugvöllinn þótt við verðum að vonast til þess að slík umferð verði ekki um hann sem veldur ónæði á borð við það sem gerist með lendingum slíkra véla, sem ég tek undir að er ekki æskilegt, enda eru það alger undantekningartilvik að svo sé.

Þetta er svar mitt, virðulegi forseti, og ég vona að hv. þingmaður sé sáttur við það.