132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Spilafíkn.

99. mál
[18:57]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hv. 8. þm. Reykv. s. hefur beint til mín fyrirspurn um meðferð við spilafíkn. Þingmaðurinn spyr hve margir hafi farið í meðferð vegna spilafíknar á síðustu þremur árum hjá SÁÁ og geðdeild Landspítalans eða öðrum stofnunum.

Þá er spurt um skiptingu eftir kynjum og um aldurssamsetningu, hvaða úrræði hafi verið um að ræða og hve meðferð vari að jafnaði lengi, hvers konar spilamennska sé helsta orsök spilafíknar og hve margir hafi náð bata á umræddu tímabili.

Virðulegi forseti. Í svari við þessum spurningum frá Landspítala – háskólasjúkrahúsi kemur fram að ekki hefur verið veitt sérhæfð meðferð við spilafíkn á geðdeild Landspítala – háskólasjúkrahúss. Hins vegar komi oft í ljós við meðhöndlun einstaklinga með áfengis- og fíkniefnavanda að þeir hafi einkenni spilafíknar. Við þessu sé brugðist í meðferðinni án þess þó að um sérhæfða meðferð sé að ræða. Þá kemur fram í svari Landspítala – háskólasjúkrahúss að ekki liggi fyrir hve margir sjúklingar geðdeildar Landspítala – háskólasjúkrahúss eigi í erfiðleikum vegna spilafíknar né hverjar batalíkur séu.

Helstu úrræði fyrir spilafíkla eru veitt hjá SÁÁ en einnig er ráðuneytinu kunnugt um að fólk með spilafíkn sé til meðferðar hjá sjálfstætt starfandi sálfræðingum og geðlæknum. Því miður reyndist ekki unnt að útvega í tíma upplýsingar um þau efnisatriði sem fyrirspurn hv. þingmanns tekur til. Svar mitt er því byggt á takmörkuðum upplýsingum úr ársskýrslu SÁÁ fyrir árið 2004.

Samkvæmt umræddri ársskýrslu er spilafíklum veitt göngudeildarþjónusta og að jafnaði eru um 10–15 manns sem nýta sér vikulegan stuðningshóp fyrir spilafíkla. Einnig er hjá SÁÁ boðið upp á meðferðarnámskeið fyrir aðstandendur auk einstaklingsráðgjafa og stuðningshópa. Hefðbundin meðferðarnámskeið fyrir aðstandendur eru haldin á kvöldin tvisvar í viku og standa í fimm vikur.

Fram kemur að til þess að koma til móts við þarfir landsbyggðarfólks séu reglulega haldin helgarnámskeið í Reykjavík og á Akureyri. Í skýrslunni segir að í nokkrum tilvikum séu spilafíklar lagðir inn á Sjúkrahúsið Vog ef andlegt ástand er talið mjög slæmt. Vikulegir fundir GA, Gamblers Anonymous, og GamAnon-samtakanna eru haldnir í húsnæði göngudeildar SÁÁ í Reykjavík.

Ég vil einnig gera grein fyrir því að í byrjun árs 2004 voru stofnuð Samtök áhugafólks um spilafíkn sem hafa að markmiði að auka umræðu og þekkingu á spilafíkn á Íslandi, vinna að forvarnastarfi og veita þeim sem eiga við spilafíkn að etja hjálp og aðstoð. Leitað var til heilbrigðisráðherra um styrk til að koma samtökunum á fót og varð ég við þeirri beiðni.

Virðulegi forseti. Eins og ég gerði grein fyrir áðan skortir mig upplýsingar um þá efnisþætti sem hv. þingmaður óskaði svara við. Ég vona þó að þær upplýsingar sem hér hafa komið fram varpi einhverju ljósi á hvaða meðferðarúrræði standa til boða þeim einstaklingum sem haldnir eru spilafíkn. Þó að ég geri mér grein fyrir að svar mitt sé ekki tæmandi vona ég að það sé til gagns til umræðna um málið.