132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[18:24]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir þessa ágætu skýrslu. Það er farið út um víðan völl og tæpt á mörgum málum. Þó ekki sé kannski kafað djúpt í málefnin þá er tæpt á mörgum málum og svo sem ekkert við það að athuga. Mér finnst þó að hæstv. utanríkisráðherra hefði mátt fjalla ítarlegar í skýrslunni einkum um þrjú málefni, þ.e. um það sem fólkið í landinu er að velta fyrir sér. Mér finnst það vanta. Það er í fyrsta lagi um tildrög þess að Ísland studdi innrásina í Írak, í öðru lagi um viðræður um varnarhagsmuni þjóðarinnar við Bandaríkjamenn og í þriðja lagi finnst mér ég hafa orðið var við það í umræðunni að fólkið í landinu vill einnig fá nánari upplýsingar um starfsemi utanríkisþjónustunnar. Ég tel vel við hæfi að fara inn á þessi málefni hér. Síauknir fjármunir hafa verið veittir til utanríkisþjónustunnar og æ fleiri sendiherrar eru komnir á spena ríkisins. Ég tel vel við hæfi að upplýsa hvað kalli á þessa þörf.

Ef maður skoðar þessi mál þá er það ljóst í mínum huga að núverandi hæstv. forsætisráðherra og fyrrum hæstv. forsætisráðherra Davíð Oddsson, (Gripið fram í: Seðlabankastjóri núna.) seðlabankastjóri núna, bera ábyrgð á þessu. Ísland er á lista yfir þjóðir sem studdu innrásina í Írak. Ég tel því vel við hæfi að hreinsa andrúmsloftið í þjóðfélaginu og gefa skýringu á þessu, vegna þess að þetta tengist öðru máli, varnarviðræðunum. En það er heldur ekki mikið um stöðu þeirra í þessari skýrslu. Tæpt er á líffræði og einu og öðru, fiskalíffræði sem væri áhugavert að fá svör um hjá hæstv. utanríkisráðherra. Það er deginum ljósara að tvö fyrstnefndu málin eru samtvinnuð, þ.e. aðild Íslands að innrásinni í Írak og viðræður íslenskra stjórnvalda við Bandaríkin um að halda hér varnarviðbúnaði. Miklar líkur eru til þess að íslenskir ráðamenn hafi talið stuðninginn við stríðið í Írak vera lykillinn að því að fá að hafa hér áfram herþotur og varnarviðbúnað. Ég tel að það sé um að gera að fara rækilega í gegnum það.

En það er annað sem hefði verið við hæfi. Það er að hæstv. forsætisráðherra ætti fyrir löngu að vera búinn að gera grein fyrir atburðarásinni og orsökum þess hvers vegna við Íslendingar erum á þessum lista. Ég sé það á skýrslunni að þetta er ákveðið feimnismál hjá stjórnvöldum. Það eru örfáar línur um Íraksmálið sem er ofarlega í hugum fólksins í landinu. En það er greinilega ekki mikið rúm fyrir það í þessari skýrslu. Ég tel því að fyrir löngu hafi verið tímabært að gera grein fyrir þessu.

Hæstv. forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson varð margsaga. Í fyrsta lagi hefur hann haldið því fram að stuðningurinn tengdist varnarviðræðunum. Síðan dró hann í land. Ég veit eiginlega ekki hverju hann heldur fram núna. Það er fyrir löngu orðið tímabært að hann geri hreinskilnislega grein fyrir því hvort þessi mál tengist. Það væri ágætt ef hæstv. utanríkisráðherra segði okkur frá því hér.

Í öðru lagi hefur hæstv. forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson haldið því fram að breytt afstaða Frakka í málinu hafi valdið stefnubreytingunni örlagaríku. Það hefur komið á daginn að það getur ekki staðist. Það er eftiráskýring sem er ósönn. Það hefur sýnt sig að hæstv. forsætisráðherra hefur ekki haft döngun í sér að gera hreint fyrir sínum dyrum. Nú er því kjörið tækifæri fyrir nýjan hæstv. utanríkisráðherra að koma hreint fram og segja fólkinu hvernig þetta var því að hann átti í rauninni ekki hlut að máli. En það hefur komið á daginn að hæstv. forsætisráðherra og fyrrum forsætisráðherra voru höfuðpaurarnir í þessu máli.

Í þriðja lagi hefur hæstv. forsætisráðherra gefið í skyn að sú ákvörðun sem við sitjum uppi með hafi verið margrædd í þingflokki Framsóknarflokksins og jafnvel í utanríkismálanefnd. En síðan hefur komið á daginn að svo var ekki.

Í fjórða lagi hefur verið gefið í skyn að um einhverja tvo lista hafi verið að ræða og Ísland hafi bara sýnt móralskan stuðning. En við gerðum nú meira en það, við tókum beinan þátt með því að senda Landhelgisgæsluna til Íraks að leita að sprengjum. Það er kominn tími til að gera hreint fyrir okkar dyrum í þessu máli. Á daginn hefur komið að umrædd árás var byggð á fölsuðum gögnum. Einnig er staðreynd að stuðningur við Bandaríkjamenn er að minnka og menn eru að átta sig á því að hér hafa orðið mistök. Ég segi: Hvers vegna geta íslensk stjórnvöld ekki líka viðurkennt það og sagt að okkur hafi orðið á mistök og beðist afsökunar?

Ég er á því að þjóðin væri mjög líklega tilbúin að fyrirgefa þessum mönnum vegna þess að þeir vissu kannski ekki betur og þeim gekk ef til vill gott eitt til. En meðan þeir halda til streitu þeim leik að koma ekki hreint fram, þá er það óásættanlegt. Ég er á því að menn verði einfaldlega menn að meiri ef þeir koma hreint fram í þessu máli.

Annað sem er mjög vert að minnast á er hin mikla þensla í utanríkisþjónustunni. Það kemur fram í máli manna að þetta sé mjög mikilvæg þjónusta og það má vel vera. En það er einnig deginum ljósara að stjórnvöld verða að skýra út fyrir þjóðinni og hafa einhverja kynningu á því hvað er að gerast í utanríkisþjónustunni. Hvers vegna er hún að þenjast svona út um marga milljarða á föstu verðlagi? Það verður að vera kynning á því.

Ég er þingmaður hér á þjóðþinginu og ég sé ekki þessa miklu þörf fyrir slíka útþenslu á utanríkisþjónustunni. Ef á að verða sátt um störf utanríkisþjónustunnar verður að vera einhver kynning á mikilvægi hennar. Það er engin sátt að menn séu að ráða eintóma innanbúðarmenn í stjórnarflokkunum og síðan einn og einn utan flokkanna til að friða, svo sem hv. fyrrum þingmann í Samfylkingunni, Guðmund Árna Stefánsson. (Gripið fram í: … þingmaður Frjálslynda flokksins.) Ef menn ætla að hafa frið um utanríkisþjónustuna verða menn að hafa mannaráðningar með þeim hætti að fólkið skilji þær. Þetta er alveg óskiljanlegt að vera alltaf að sækja menn í tugatali til stjórnarflokkana og svo einn og einn kannski í Samfylkinguna. (HBl: Hvaða þingmann Frjálslynda flokksins?) (ÖS: Sverri Hermannsson.)

Hér hefur ýmislegt fleira borið á góma, m.a. fiskveiðar sem okkur í Frjálslynda flokknum eru hugleiknar. Deilur hafa verið um það milli hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og annarra þingmanna hvort stefna Evrópusambandsins sé góð eða vond. Það mátti skilja orð hans á þann veg að stefna Íslendinga væri sérstaklega góð. Ein meginástæða fyrir því að ég tel ótækt að ganga í Evrópusambandið er sú að stefna Íslendinga í fiskveiðimálum er alvond.

Menn geta keypt veiðiheimildir, jafnvel til langframa eða a.m.k. þangað til þessir flokkar fara frá völdum sem verður vonandi sem allra fyrst, og það er orðið þannig að hér er komin ný stétt útgerðarmanna sem eru leiguliðar og leigja aflaheimildir. Þeir greiða hátt í 9 milljarða fyrir að fá að sækja sjóinn til einhverra sem eru handhafar þeirra veiðiheimilda, þ.e. Sjálfstæðisflokkurinn og hinn kvótaflokkurinn, Framsóknarflokkurinn, og þangað rennur helmingurinn af tekjum þeirra. Sumir þessara manna eru ekki búsettir á Íslandi, jafnvel búsettir í Bandaríkjunum. Með inngöngu í Evrópusambandið skiptir máli fyrir leiguliða sem leigir til sín aflaheimildir dýru verði hvort viðkomandi er með íslenska kennitölu eða spænska kennitölu. Við í Frjálslynda flokknum sjáum þá hættu að með því að fara inn í Evrópusambandið með núverandi fiskveiðistefnu mundi það einfaldlega leiða til þess að varanlegar aflaheimildir gætu þess vegna lent í höndunum á útlendingum og Íslendingar sem stunduðu útgerð þyrftu að greiða háar leiguupphæðir til manna sem væru búsettir í öðrum löndum. Það væri algerlega ótækt. Ég vona að þingmenn taki eftir því, og sérstaklega sjálfstæðismenn sem hafa varið þetta vitlausa kerfi, að þetta gengur ekki alls ekki og því verður að breyta þessu.

Fleira vakti athygli mína í skýrslunni. Það vantar t.d. mál sem mér finnst að utanríkisþjónustan mætti nú sinna fremur en mörgum öðrum sem virðast vera ofar á forgangslista hennar en það eru umhverfismálin. Ég hef lagt mikla áherslu á einn þátt í umhverfismálunum hér í þinginu og það er hve geislavirkur úrgangur berst hingað til stranda landsins frá Bretlandi og Sellafield, en þar var slys. Mér finnst þetta eitt af verkefnunum sem utanríkisþjónustan ætti að sinna í mun meira mæli en gert hefur verið, a.m.k. hef ég ekki fengið skýr svör hjá hæstv. umhverfisráðherra um hvort eða þá hvernig utanríkisþjónustan hefur beitt sér í því máli.

Mér finnst eitt mjög sérstakt sem kemur fram á bls. 12, og er vert að vekja athygli hæstv. utanríkisráðherra á. Þar kemur fram að framleiðni fiskstofna hafi minnkað. Mér finnst þetta vera að gerast víða um heim. Mér finnst þetta vera svolítið sérstakt og gaman að vita hvort hægt væri að fá einhverja skýringu á þessu. Nú fer framleiðni fiskstofna væntanlega eftir því hvað fiskar vaxa mikið og hver vaxtarhraði þeirra er og hvað margir fiskar eru að vaxa. Þetta er svolítið sérstakt. Nú er þetta greinilega komið með ráðum inn í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra að framleiðnin sé að minnka og maður veltir fyrir sér hvað valdi því og hvort hæstv. utanríkisráðherra hafi áttað sig á því. Menn velta því náttúrlega fyrir sér hvort þetta sé vegna aukinnar samkeppni um æti eða hvað valdi. Fróðlegt væri að fá upplýsingar um það hjá hæstv. utanríkisráðherra.

Það sem ég vil leggja áherslu á í lokin er að hæstv. ríkisstjórn horfist í augu við verk sín og axli ábyrgð og biðji þjóðina afsökunar á því að vera á umræddum lista og geri betur grein fyrir stöðu varnarviðræðna við Bandaríkjamenn. Þetta er mjög skrýtin staða. Við erum að ræða um utanríkismál og það er einhvern veginn sneitt hjá þeim málum sem þjóðin spyr sig hvað mest um, þ.e. hver staðan sé.