132. löggjafarþing — 25. fundur,  18. nóv. 2005.

Úrbætur í málefnum atvinnulausra.

94. mál
[10:57]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra svörin og það ber vissulega að fagna því sem hér er upplýst að atvinnulausir, ef ég skil hæstv. ráðherra rétt, eigi að fá þessa eingreiðslu, 26 þús. kr., núna í desember. Þeir fjármunir fara sannarlega í réttar hendur, að atvinnulausir sjái örlítið ljós í myrkrinu í öllum fjárhagsþrengingunum rétt fyrir jólin. Vissulega er ekki um háar fjárhæðir að ræða en þó gerir þetta sitt.

Það kom fram hér á þingi í gær að lífeyrisþegar eigi ekki að fá þessar eingreiðslur og verð ég að lýsa furðu minni á því. Ég skil ekki hvar og hvernig ríkisstjórnin dregur línur í því efni að skilja eftir hóp sem er líka mjög illa staddur og spyr ráðherrann hvort hann hafi einhverjar haldbærar skýringar á því. Engu að síður upplýsir ráðherrann ekkert sérstaklega um að það sé fyrirhugað í framhaldinu að atvinnulausir fái áfram desember- og orlofsuppbót en ég bið ráðherrann að huga sérstaklega að því vegna þess að það gengur auðvitað ekki að skilja undan þennan eina hóp í þjóðfélaginu. Þessi hópur er illa staddur og er einna fjölmennastur meðal þeirra sem fá fjárhagsaðstoð hjá Reykjavíkurborg svo dæmi sé tekið. Mig minnir að talan sé 42%, þannig að það er mjög slæmt.

Hæstv. ráðherra nefndi vinnumarkaðsaðgerðirnar. Ég renndi aðeins yfir þessa skýrslu rétt áður en ég kom í ræðustól og spyr: Er það rétt að verið sé að þrengja verulega skilyrði til bóta og að í ýmsum tilvikum eigi þeir sem eru atvinnulausir að vera bótalausir fyrstu dagana? Er það rétt að komið verði á einhverjum biðtíma eftir bótum í sérstökum tilvikum? Þetta stakk mig mjög þegar ég sá þetta og mér sýndist líka að það eigi að takmarka lengd bótatímabils, stytta hann úr fimm árum í þrjú ár. Tekur hæstv. ráðherra undir þetta?