132. löggjafarþing — 25. fundur,  18. nóv. 2005.

Úrbætur í málefnum atvinnulausra.

94. mál
[10:59]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil ítreka það sem fram kom í ræðu minni áðan að ég tel að við séum að stíga mikil framfaraskref innan atvinnuleysistryggingakerfisins með því að tekjutengja atvinnuleysisbætur og gera aðrar þær breytingar sem ég rakti áðan.

Til að eyða öllum misskilningi og fyrirbyggja hann vil ég taka fram að á fundi sínum í morgun ákvað ríkisstjórnin ekki einungis að atvinnulausir nytu þessarar eingreiðslu heldur líka öryrkjar og ellilífeyrisþegar. Ég veit að það mun gleðja hv. þingmann. Þetta er þá til samræmis við það sem aðilar vinnumarkaðarins sömdu um sín í milli í vikunni og miðað er við að þessar greiðslur komi til útborgunar 1. desember nk.

Hvað varðar einstaka þætti í þeirri skýrslu sem hér hefur verið gerð að umtalsefni, bæði af þeim sem hér stendur og hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, þá hef ég ekki tekið afstöðu endanlega til einstakra tillagna þar. Ég get þó upplýst að ég mun ekki beita mér fyrir því að fólk verði bótalaust í atvinnuleysi. Hins vegar fær fólk ekki tekjutengdar bætur fyrr en eftir tiltekinn tíma á grunnbótum, eins og fram kom hér áðan.

Ég á von á því, hæstv. forseti, að mér takist að leggja fyrir þingið að vori frumvarp til breytinga á þeim lögum sem hér um ræðir og þar verður að sjálfsögðu fjallað um útfærslu þeirra hugmynda og tillagna sem fram koma í nefndarálitinu. Ég hlakka til að eiga orðastað við þingmenn um það og vonast til að við getum náð góðri samstöðu um þær framfarir.