132. löggjafarþing — 26. fundur,  21. nóv. 2005.

Umhverfismat áætlana.

342. mál
[17:28]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka þingmönnum þessa ágætu umræðu. Nefnd voru nokkur atriði sem ég vildi svara eða bregðast við. Það snertir fyrst og fremst 1. gr., markmiðsgreinina. Hér er verið að nota orðalag tilskipunarinnar. Þess vegna er sagt „að draga úr verulegum neikvæðum umhverfisáhrifum“ en ekki notað orðalag laganna um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda þar sem orðalagið er „umtalsverð umhverfisáhrif“. Aðeins til að benda þingmönnum á þá er mjög vel farið yfir meginefnið í III. kafla greinargerðarinnar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Nokkur munur er á umhverfismati áætlana samkvæmt frumvarpinu og mati á umhverfisáhrifum framkvæmda, sbr. lög nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum. Það á við um nákvæmni matsins, málsmeðferð og afgreiðslu þess. Annars vegar kemur það til af því að um er að ræða almennar ákvarðanir um meginstefnu og hins vegar sértækar ákvarðanir um einstakar framkvæmdir. Sem dæmi um hið fyrrnefnda eru samgönguáætlun og aðalskipulag sveitarfélags en um hið síðarnefnda einstakar vegaframkvæmdir“ og ýmsar aðrar framkvæmdir.

Markmið umhverfismats á áætlunarstigi er að huga að umhverfisáhrifum á fyrri stigum ákvörðunartöku. Í umhverfismati áætlunar á einnig að felast mat á samlegðaráhrifum margra framkvæmda á tiltekna umhverfisþætti eða tiltekin svæði.

Umfang umhverfismats áætlunar ræðst af tvennu, annars vegar af umfangi þeirrar stefnu sem sett er fram í áætluninni og hins vegar af því hvaða þættir umhverfisins eru teknir til skoðunar. Þar sem stefnumörkun á áætlanastigi er yfirleitt almenns eðlis, samanborið við það sem á við um einstakar framkvæmdir sem háðar eru mati á umhverfisáhrifum, verður að ganga út frá því að umhverfismat áætlana sé tiltölulega gróft mat, oft án þess að sérstakar rannsóknir á umhverfi og umhverfisáhrifum fari fram.“

Hvað snertir hlutverk Skipulagsstofnunar er kveðið á um það í 3. gr. Þar er henni gert að taka ákvörðun um „hvort áætlun skuli háð ákvæðum laga þessara um umhverfismat áætlana þegar vafi leikur á því“ og þá er það Skipulagsstofnun sem sker úr um það. Um það er frekari ákvæði að finna í 4. gr. frumvarpsins. Það má því segja að eðli umhverfismatsáætlana sé nokkuð annað en laganna um mat á umhverfisáhrifum.

Ljóst er að ýmsar áætlanir munu falla undir þessi lög, eins og reyndar er tíundað mjög skýrt í greinargerðinni. Hvað snertir hins vegar hugtakið sjálfbæra þróun þá er það auðvitað hugtak sem notað er í alþjóðlegri umræðu um umhverfismál. Það snýst í aðalatriðum um það að við sem lifum í dag getum mætt mögleikum okkar án þess að við drögum úr möguleikum komandi kynslóða og án þess að við göngum á gæði náttúrunnar. Um það snýst þetta allt saman. Hins vegar er líka mjög eðlilegt að við reynum að hámarka efnahagslega velferð okkar á hverjum tíma. Ég á von á því að það muni allar kynslóðir gera til framtíðar en þá ber okkur líka að hafa í huga að við göngum ekki á möguleika annarra sem á eftir koma.

Mér finnst mjög eðlilegt að við gerum það í dag, eins og ég býst að þær kynslóðir sem koma á eftir okkur muni gera. Það truflar mig ekki þó að talað sé um hámörkun efnahagslegrar velferðar innan þessara marka. Þarna erum við bara einfaldlega ósammála, ég og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir.