132. löggjafarþing — 26. fundur,  21. nóv. 2005.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

327. mál
[18:39]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka skýrt fram að ég held að ég hafi ekki verið að ýkja neitt í þeim efnum sem ég fór yfir, um þau gríðarlegu áhrif sem þungaskatturinn hafði áður og olíugjaldið hefur núna. Það voru engar ýkjur um skattheimtu ríkissjóðs af flutningastarfsemi, sama hvort var í gamla þungaskattskerfinu eða nýja olíugjaldskerfinu, helmingurinn af flutningsgjöldunum rennur sem skattur til ríkissjóðs.

Hvað varðar rækjuiðnaðinum sem ég nefndi og hæstv. fyrrverandi sjávarútvegsráðherra þekkir þau vandamál mjög vel þá er það alveg hárrétt sem hann taldi hér upp; offramboð, lægra verð, erfiðari veiði hérlendis og hátt olíuverð. En það er dálítið merkilegt að rækjufyrirtækin vestur á fjörðum hafa fjallað um háan flutningskostnað við að flytja rækju til og frá verksmiðjunum. Þar voru há flutningsgjöld nefnd sem dæmi um vanda þeirra. Svo einkennilega sem það kann að hljóma í eyrum hæstv. fjármálaráðherra þá var það nú svo.

Varðandi skattheimtuna og það kerfi sem hér hefur verið rætt um, og ég ætla ekki að útlista frekar í stuttu andsvari, þá er líka, eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði, verið að huga að fjármagni til vegagerðar. Í tölum frá FÍB er skattheimta af umferð og bifreiðainnflutningi o.fl., sem menn kalla stundum skatt af umferð, í kringum 32 milljarðar kr. á ári. Aðeins 14 milljarðar af þeirri upphæð renna í heildarpakka til Vegagerðarinnar á ári. Það er því dálítið umfram hvað það varðar. Þetta sýnir kannski það sem ég hef verið að benda á, virðulegi forseti, hina ofboðslegu skattheimtu og gjöld af þessari starfsemi sem renna í alls konar sköttum beint til ríkissjóðs aftur.