132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Röðun mála á dagskrá.

[13:48]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég verð nú eiginlega að lýsa aðdáun minni á forustu stjórnarandstöðunnar hér í þingsalnum í dag. (Gripið fram í: Heyr, Heyr. Þar kom að því.) Uppfinningasemi þeirra í því að finna sér átyllur til þess að vekja á sér athygli eru engin takmörk sett. Mér þykir hins vegar leiðinlegt að það skuli vera á kostnað samstöðu um hið ágæta mál forsætisráðherra um að bæta réttarstöðu samkynhneigðra.

Ef jafnmikil samstaða er um málið og stjórnarandstaðan hefur lýst þá breytir það nákvæmlega engu um framgang þess hvort það er tekið fyrir sem fyrsta dagskrármál á eftir atkvæðagreiðslum eða annað dagskrármál — nema leikurinn sé til þess gerður að tefja fyrir því máli sem þeir segja umdeilt og vilja helst ekki ræða hér, eins og maður hefur orðið var við áður. Ef það er þá er það ljótur leikur og ekki í anda lýðræðisins. Þá hefðu þingflokksformennirnir átt að taka það upp á fundi með forseta áður en þingfundur hófst.

Svo ætla ég nú að lýsa því yfir að þó að hv. þm. Jón Bjarnason hafi skoðun á því hvernig dagskráin á að vera þá er það ekki vilji þingheims sem þar kemur fram. Því legg ég til að við göngum til dagskrár eins og hún liggur fyrir. (JBjarn: Ertu nú viss um það?)