132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[13:59]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Eins og kemur fram í máli hæstv. iðnaðarráðherra þá er þetta liður í virkjunar- og stóriðjuáformum iðnaðarráðherra, þ.e. að slá saman í eitt rannsóknarleyfi og virkjunarleyfi á vatnsföllum. Áður fóru menn út í rannsóknir án þess að hafa tryggingu fyrir því að þeir fengju líka virkjunarleyfi, eins og ráðherra hefur gert grein fyrir, en nú á að slá þessu saman þannig að þegar rannsóknarleyfi er veitt er í rauninni verið að veita virkjunarleyfi.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. ráðherra: Hvað er það sem rekur svona ofboðslega á eftir þessu nú að málið er keyrt með þessu offorsi hér inn í þingið? Ég kalla það offors þegar verið er að troða þessu máli inn í ræður formanns Sjálfstæðisflokksins og hæstv. utanríkisráðherra og svo aftur hér. Hvað er það sem rekur á eftir þessu? Hefði ekki verið nær hjá ráðherranum að ræða byggðamál, stöðu Byggðastofnunar? Er það ekki meira knýjandi en álvæðing landsins?

Ég vil því spyrja ráðherrann: Hvaða fljót er það sem liggur svona á að fá virkjunarleyfi fyrir? Eru það jökulvötnin í Skagafirði? Er það Skjálfandafljót? Er það kannski Jökulsá á Fjöllum? Er það Langisjór? Hvaða vötn eru það sem ráðherranum hæstv. liggur nú svo á að fá virkjunarleyfi fyrir? Ég vil fá svör við því, frú forseti.