132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[16:01]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.

Eins og hér hefur komið fram byggir þetta frumvarp á frumvarpi sem kom fram undir vor á síðasta þingi með þeirri undantekningu að sleppt er ákvæði til bráðabirgða sem kom fram í því frumvarpi og var nokkurs konar sáttafrumvarp frá hv. iðnaðarnefnd. Þar er fellt niður ákvæði til bráðabirgða þar sem lagt er til að: „skipa nefnd fulltrúa allra þingflokka sem sæti eiga á Alþingi. Í nefndinni skulu jafnframt eiga sæti þrír fulltrúar frá Samorku. Þá skal iðnaðarráðherra skipa tvo fulltrúa og skal annar þeirra vera formaður nefndarinnar. Hlutverk nefndarinnar er að gera tillögu um með hvaða hætti valið verði milli umsókna um rannsóknar- og nýtingarleyfi á grundvelli laga þessara og marka framtíðarstefnu um nýtingu þeirra auðlinda sem lögin ná til“.

Hæstv. forseti. Ég vitnaði hér til frumvarpsins sem lagt var fram síðasta vor. Ég tel mikilvægt að þetta ákvæði til bráðabirgða sé alveg skýrt í þessari umræðu því að það frumvarp sem við fjöllum um nú er ekki eins og — þar liggur fiskur undir steini. Það er fært í þann dulbúning að verið sé að leggja fram frumvarp til almennra laga um rannsóknir á vatnsafli til raforkuframleiðslu. Ég segi í dulbúningi því að orðalagið er almennt en tilgangurinn er sá að auðvelda þeim aðilum sem þegar hafa áhuga á að fara í rannsóknir á vatnsafli til raforkuframleiðslu að komast að svo hægt sé að flýta undirbúningi að raforkuframleiðslu til væntanlegra álvera. Hér liggur fiskur undir steini. Þetta er almennt orðað en það hefur komið fram í umræðunni að í raun er verið að koma til móts við aðila úr og frá ákveðnum sveitarfélögum sem treysta sér til að fara í rannsóknir á ákveðnum svæðum með tilstilli og styrk frá orkugeiranum, fara í rannsóknir sem mundu þá í framhaldinu leiða til þess að vatnsaflið væri nýtt til raforkuframleiðslu.

Það er nú svo, hæstv. forseti, að þeir aðilar sem hafa verið í rannsóknum á gufuafli hafa farið nokkuð drjúgt um heiðar og verið mér liggur við að segja eins og hundar og migið utan í hverja þúfu og þar með eyrnamerkt sér þau svæði sem í framtíðinni megi nota til raforkuframleiðslu, þ.e. rannsóknir á viðkomandi svæði gefi rétt til nýtingar. Það hefur ekki verið með vatnsaflið og því er ljóst að þeir aðilar í orkugeiranum sem vilja komast í að nýta vatnsaflið, vatnsauðlindirnar, vilja fá nokkra tryggingu fyrir því að geta farið í raforkuframleiðslu í framhaldi af þeim kostnaði sem er við rannsóknirnar og það er skiljanlegt.

Ef við byggjum ekki við það ástand sem hér ríkir í skjóli núverandi ríkisstjórnar að ofuráhugi hefur verið lagður á að styrkja álframleiðslu í landinu, ef ekki væri vitað til þess að áhugi væri á og í raun búið að lofa álverum bæði í Helguvík og á Norðurlandi, en til þess þarf frekari orku, og ef við byggjum ekki við það umhverfi að þetta væru þær lausnir sem hæstv. ríkisstjórn býður landsmönnum upp á til frekari atvinnuuppbyggingar, þá hefði maður ekki jafnillan bifur á þessu frumvarpi og raun ber vitni. Auk þess eru ekki sjáanlegar neinar almennar þarfir fyrir að afgreiða þetta frumvarp núna í hasti. Ef þetta væri frumvarp sem væri almennt fyrir rannsókn og nýtingu á auðlindum í jörðu, óháð þeim aðilum sem þegar hafa bankað upp á og vilja fá tryggingu fyrir því að geta haldið áfram eftir að rannsóknum lýkur í raforkuframleiðslu þá væri maður nokkuð rólegur. En þegar við bætist að hæstv. ríkisstjórn gefur sér ekki tíma til að skoða málið heildstætt og taka önnur frumvörp sem hv. Alþingi þarf að fjalla um og fara yfir sem lúta að nýtingu á vatni og verndun náttúruverndarsvæða þá er ekki hægt að búast við því að stjórnmálaafl eins og Vinstri hreyfingin – grænt framboð sé mjög jákvætt í garð þessa frumvarps. Hér ræður orkunýtingin, hér ræður þörf orkufyrirtækjanna en ekki náttúruverndarsjónarmið, þau eru lögð til hliðar og vatnsverndarsjónarmið eru lögð til hliðar.

Ljóst er að hér er verið að slá saman í eitt rannsóknarleyfi og virkjanaleyfi. Við erum ekki að fjalla um frumvarp til laga sem snýr að grunnrannsóknum sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði styðjum og teljum að þurfi að efla til muna. Því er eðlilegt að fram komi krafan um að upplýst verði í þessari 1. umr. og við vinnslu í málinu hvaða beiðnir liggi fyrir um rannsóknarleyfi og hvaða skilyrði viðkomandi aðilar hafi sett fram til að þeir hefji rannsóknir og leggi út í kostnað við rannsóknirnar. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að hæstv. ráðherra finnist eins og orkufyrirtækin séu tregari til að stunda rannsóknir á vatnsafli, séu tregari en „heppilegt getur talist.“ Heppilegt getur talist. Erum við sem þjóð í svo mikilli þörf fyrir frekari raforkuöflun en er í dag? Ekki fyrir almennan iðnað, ekki fyrir almenna notkun. Það er eingöngu til stóriðju sem við þurfum á frekari orku að halda, ekki til almennrar notkunar. Þetta er því eingöngu sett fram til að hvetja þá aðila sem hafa sýnt því áhuga að fara í rannsóknir að því tilskildu að þeir fái raforkuframleiðsluna í framhaldinu. Þetta er eingöngu sett fram til þess að hvetja þá til að gefast nú ekki upp, halda áfram og vera þá búnir að eyrnamerkja sér það vatnsafl eða það svæði sem þeir vilja hefja rannsóknir á. Til hvers ætti í raun að fara í slíkar afmarkaðar rannsóknir nema virkjanaleyfið fylgdi með?

Verið er að fjalla um vatnalögin núna á þinginu en frumvarp til vatnsverndarlaga lætur á sér standa. Það er sjálfsögð krafa að vatnsverndarlögin fari í gegnum þingið samhliða þeim frumvörpum sem fjalla um nýtingu á vatni þannig að heildstæð mynd fáist á þessu sviði. Við höfum flaggað hugtakinu um sjálfbæra þróun. Það var gert á umhverfisþingi sem var um síðustu helgi þar sem umhverfisþingið hafði yfirskriftina Sjálfbær þróun. Í mínum huga er orðin of mikil hugtakanotkun en ekki vinna í raun sem hæstv. ríkisstjórnin innir af hendi. Á mjög mörgum sviðum t.d. í atvinnumálum og í stóriðjumálum er unnið alveg þvert á sjálfbæra þróun í orkustefnu og atvinnugreinum. Ber þar hæst Kárahnjúkavirkjun, Hálslón. Það er hreint ótrúlegt að hlusta á það aftur og aftur að við stundum sjálfbæra orkustefnu, það sé sjálfbær orkustefna að fá rafmagnið úr mengunarlausum uppsprettum á sama tíma og ljóst er að virkjun eins og Kárahnjúkavirkjun getur aldrei verið sjálfbær, er það ekki og verður það ekki. Verið er að snúa hugtakinu sjálfbær þróun á haus og ég tel að ekki sé hægt til lengdar að flagga hugtakinu sjálfbær þróun en ganga svo gjörsamlega gegn þeirri hugmyndafræði. Það ætti þá frekar að kalla það sínum réttum nöfnum og tala um Kárahnjúkavirkjun sem mengunarlausa virkjun, lausa við loftmengun, og það er það sem verið er að vísa til þegar verið er að dásama hvað það sé gott að fá slíkar stórvirkjanir til Íslands, að þær mengi ekki loftið en sjálfbærar eru þær ekki.

Eins og ég sagði áðan, hæstv. forseti, nú á að leyfa orkufyrirtækjunum að eyrnamerkja sér bæði svæði og vatnsföll og ég tel að þetta séu lög sem komi til vegna ákveðinna fyrirhugaðra framkvæmda við stóriðjuna en ekki lögð hérna fram sem almenn lög.

Hæstv. iðnaðarráðherra hefur spurt að því hvar megi virkja, hvar við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði teljum að megi virkja, við séum á móti öllum virkjunum. Ég vil hvetja hæstv. iðnaðarráðherra til þess að lesa frumvarp sem var lagt fram á fyrstu dögum þingsins um sjálfbæra orkustefnu, sem er mikið að vöxtum, og við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði lögðum hér fram. Ég held að það væri hollt fyrir hæstv. iðnaðarráðherra að lesa það frumvarp og hætta þá að kalla eftir því hvar megi virkja því að sannarlega má virkja, en við höfum gengið ótæpilega á þá virkjunarkosti sem sátt hefur verið um, og gott betur, samanber Kárahnjúkavirkjun. Því er mikilvægt að ljúka rammaáætlun um nýtingu vatns og jarðvarma. Það verður engin sátt um frekari virkjunarleyfi til stóriðju með vatnsaflsvirkjunum.

Álverin og álversframleiðslan kalla eftir mikilli orku og þar af leiðandi stórum uppistöðulónum eða virkjunum stórfljótanna með tilheyrandi vatnsmiðlunarlónum. Það er alveg ljóst að eftir 2009, þegar annar áfangi rammaáætlunar verður lagður fram, má ætla að gengið verði svo á bestu virkjunarkosti út frá hagsmunum orkufyrirtækjanna að það verði ekkert eftir til þess að raða upp eins og rammaáætlunin segir til um, þ.e. ef orkufyrirtækin og hæstv. iðnaðarráðherra ráða för verður búið að ganga á bestu virkjunarkostina út frá hagsmunum orkufyrirtækjanna.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill sjálfbæra orkustefnu eins og við höfum lagt til og við viljum nýta vatnsorkuna til dreifðari atvinnufyrirtækja, þ.e. við viljum falla frá álversátrúnaði hæstv. iðnaðarráðherra, við viljum falla frá álversátrúnaði í opinberri atvinnustefnu.

Hér hefur verið, hæstv. forseti, aðeins minnt á Kyoto-bókunina og mengunarkvótana. Það hefur líka komið fram að hér eru uppi hugmyndir um að koma a.m.k. þremur nýjum álverum í rekstur. Tímasetningarnar eru ekki ljósar en það er þegar verið að undirbúa frekari álversframkvæmdir og það hefur líka komið fram að sá mengunarkvóti sem við eigum eftir ónýttan mun ekki duga nema fyrir svo sem eins og einu stóru álveri og þá stendur tvennt eftir og það er að þeim álrisum sem eru að leita eftir framkvæmdaleyfum hér á landi hefur verið gefið undir fótinn með að það komist allir að eða þá að við þurfum að fara að kaupa mengunarkvóta. Þetta gengur ekki upp eins og staðan er í dag og ég held, hæstv. forseti, að rétt sé að þessi hlið málsins verði svo skoðuð rækilega áður en frekari rannsóknarleyfi og þar með í framhaldinu virkjunarleyfi verði gefin út.

Ég tel, hæstv. forseti, einnig mjög mikilvægt að fá niðurstöður frá sérskipaðri nefnd eins og lagt var til í frumvarpinu frá því í vor, að sett verði á laggirnar sérskipuð nefnd sem setji reglur um úthlutun á rannsóknarleyfum, því að með rannsóknarleyfinu er næstum sjálffengið virkjunarleyfi og þetta eru verðmæti sem margir vilja komast í og það verður að vera ljóst hvernig reglurnar um úthlutunina eiga að vera áður en farið er að úthluta rannsóknarleyfum.

Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra hvað eftirfarandi málsgrein um endurkröfurétt í 3. gr. frumvarpsins þýði, en þar segir, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir að sá kostnaður sem endurgreiðsla beri sé í samræmi við rannsóknaráætlun og í beinum og efnislegum tengslum við fyrirhugaða nýtingu.“

Þessi endurgreiðslukostnaður við fyrirhugaða nýtingu, er það áætlaður gróði af rekstri vatnsaflsvirkjunar? Er meiningin sú, hæstv. forseti, að rannsóknaraðila sé endurgreiddur áætlaður gróði af rekstri vatnsaflsvirkjunar sem hann hefði fengið ef virkjunarleyfið hefði fylgt í kjölfarið á rannsóknarleyfinu en falið einhverjum öðrum?