132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[16:23]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég teldi það kurteisi að hæstv. iðnaðarráðherra svaraði spurningunni sem ég bar fyrir hana í stað þess að svara með annarri spurningu.

Ég vil ítreka þá spurningu sem ég lagði fyrir hana um hvort það sé áætlaður gróði af rekstri vatnsaflsvirkjunar sem á að endurgreiða rannsóknaraðilum, þ.e. fái þeir ekki úthlutað virkjunarleyfi.

Hvað varðar uppbyggingu á Austurlandi þá bý ég á Austurlandi, á Egilsstöðum, og ég verð vör við mikla uppbyggingu og mikla umferð. Ég verð einnig vör við blendnar tilfinningar hjá fólki og þær verða stöðugt blendnari hvað varðar þær miklu framkvæmdir sem eru í gangi. Það er fólk sem bjóst við að fá mikla atvinnu inn á svæðið fyrir heimamenn og fólk sem hafði ekki áttað sig á þeim miklu óafturkræfu umhverfisspjöllum, umhverfisröskun og tjóni sem hefur orðið uppi á hálendinu en því miður er of seint að átta sig nú á hvílíkt inngrip og röskun er orðin þar. Ég verð vör við bæði jákvæðar og neikvæðar hliðar.

Það sem skiptir máli, hæstv. forseti, er að spyrja að leikslokum. Hvernig mun samfélagið sem er á miðsvæði Austurlands líta út þegar virkjunarframkvæmdum lýkur? Hvernig munu jaðarsvæðin þróast í framtíðinni, þau svæði sem í dag eru algjörlega að koðna niður og fá ekki mola af þeim miklu framkvæmdum sem eru í gangi á miðsvæðinu? Frú forseti, spyrjum að leikslokum, lærum af reynslunni og höldum ekki áfram inn í frekara álæði og svona stórkostlegt inngrip og skemmdir á náttúru og inngrip inn í lítil samfélög, áður en við sjáum hver niðurstaðan og áhrifin verða af þessum framkvæmdum.