132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[17:08]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er erfitt að eiga orðaskipti við hv. þingmann þar sem hann eyðir hálfu andsvarinu í að tala eingöngu um hversu ómálefnalegur málflutningur þess sem hér stendur er án þess að færa fyrir því nokkur rök.

Hv. þingmaður talar um að störf séu að tapast. Ég vil benda hv. þingmanni á að atvinnuástand hér á landi er prýðilega gott heilt yfir litið. Atvinnuleysi er 1,8% núna. Auðvitað veldur staða krónunnar erfiðleikum í sjávarbyggðum landsins. Ég geri mér vel grein fyrir því. En það er rangt að halda því fram að þar sé einvörðungu um ruðningsáhrif vegna stóriðju á Austurlandi og Vesturlandi að ræða. (Gripið fram í.) Útlánaaukning bankanna til að mynda hefur farið að miklu leyti í einkaneyslu landsmanna. Heildarlántaka bankanna í erlendri mynt var um 1.000 milljarðar á milli áranna 2004 og 2005, júlímánaða þá. Heldur hv. þingmaður að það hafi engin áhrif?

Allir eru sammála um að spákaupmennska með íslenskan gjaldmiðil erlendis upp á 130 milljarða hefur haft mikil áhrif á gengi krónunnar. Heldur hv. þingmaður því fram að það hafi engin áhrif á stöðu krónunnar, þ.e. 130 milljarðar í samanburði við 38 milljarða sem streyma inn í landið vegna þeirra framkvæmda sem við höfum rætt í dag? Við hljótum að geta sett þessa hluti í samhengi. Það er ekki hægt að taka einvörðungu einn þátt út í þessum efnum.

Hæstv. forseti. Það er alveg ljóst að okkur hv. þingmann, framsóknarmenn og Vinstri græna greinir allsvakalega á í atvinnustefnu þjóðarinnar. En við höfum varið miklum fjármunum til nýsköpunar og miklum fjármunum til samgöngubóta á landsbyggðinni í kjölfar markaðsvæðingar Símans. Það hefðum við ekki farið út í ef Vinstri grænir hefðu verið við völd. Við hefðum ekki verið búin að markaðsvæða bankana (Forseti hringir.) og þar af leiðandi væri ekki það ástand sem er hér á Íslandi í dag.