132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Gleraugnakostnaður barna.

95. mál
[13:09]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi beinir til mín eftirfarandi fyrirspurn:

„Hvaða tillögur um úrbætur hefur starfshópur gert sem endurskoða átti lög og reglur um endurgreiðslu á gleraugnakostnaði barna 18 ára og yngri, en starfshópurinn átti að skila niðurstöðum til ráðherra í maí 2005?“

Því er til að svara að umræddur starfshópur hefur skilað áfangaskýrslu um málið þar sem gengið er út frá þeirri forsendu að gleraugu séu hjálpartæki og því eðlilegt og sanngjarnt að ríkið taki þátt í kostnaði við þau eins og önnur hjálpartæki miðað við tiltekin gefin skilyrði. Tillögur hópsins miðast við að jafna kostnað barnafólks vegna gleraugnakaupa þannig að útgjöld vegna gleraugna barna verði svipuð, hvort heldur barnið þarf flókin eða einföld gleraugu, að auka jöfnuð milli einstaklinga með mismunandi sjónlagsgalla og stuðla að samkeppni milli gleraugnasala.

Í tillögunum er tekið tillit til hækkaðs forræðisaldurs barna. Tillögurnar sem ég hyggst hrinda í framkvæmd eru eftirfarandi:

1. Að endurgreiðslualdur verði hækkaður um tvö ár, frá því að vera fyrir börn og unglinga með ákveðna sjónlagsgalla að 16 ára aldri í það að verða fyrir öll börn og unglinga að 18 ára aldri.

2. Að greiddir verði styrkir vegna gleraugna barna þar sem styrkleiki glerja er +0,75 eða meiri eða sjónskekkja +0,50 eða meiri.

3. Að ríkið taki þátt í gleraugnakostnaði einstaklinga 18 ára og eldri með tiltekna augnsjúkdóma. Reiknað er með að þessi hópur sé nú á bilinu 160–170 einstaklingar.

4. Að greidd verði gleraugu barna þriggja ára og yngri allt að tvisvar á ári, árlega fyrir börn á aldrinum 4–8 ára, annað hvert ár fyrir börn og unglinga á aldrinum 9–17 og þriðja hvert ár fyrir 18 ára og eldri

5. Að greiðsluþátttaka ríkisins verði áfram föst upphæð sem miðist við styrkleika og gerð glerjanna en þó aldrei hærri fjárhæð en sem nemur verði þeirra. Segja má að föst krónutala stuðli að samkeppni milli gleraugnaverslana sem hlutfallsgreiðslur gera ekki.

6. Að hlutfall endurgreiðslu eða styrks verði hækkað frá því sem nú er en síðustu tvö árin hafa endurgreiðslur Sjónstöðvarinnar verið að meðaltali 42% af heildarverði glerjanna.

Frá því í janúar 1994 hafa vinnureglur Sjónstöðvarinnar um þátttöku í kostnaði við gleraugnakaup verið föst krónutala sem ræðst af styrk og gerð glerjanna. Frá árinu 1998 til ársins 2004 voru útgjöld stöðvarinnar vegna endurgreiðslnanna því næst óbreytt fjárhæð eða frá 11–13 millj. kr. á ári. Árið 2004 nam endurgreiðslufjárhæðin 12,3 millj. kr. vegna 1.756 einstaklinga. Þar voru 1.590 börn og unglingar undir 16 ára aldri.

Í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár er gerð tillaga um að hækka fjárveitingar til Sjónstöðvarinnar um 38 millj. kr. til að standa undir þeirri ákvörðun minni að auka þátttöku ríkisins í gleraugnakostnaði barna og unglinga. Með þessari viðbótarfjárveitingu er reiknað með að samtals verði 50 millj. kr. varið árlega til að greiða niður gleraugnakostnað einstaklinga, þó aðallega fyrir börn og unglinga.

Ég hef falið fyrrgreindum starfshópi að útfæra nánar tillögurnar sem hér eru kynntar, innan þess fjárlagaramma sem til ráðstöfunar er. Í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu er nú unnið að þeirri útfærslu og verði fjárlagafrumvarpið samþykkt er reiknað með að 1. janúar nk. taki gildi reglugerð um þátttöku ríkisins í kostnaði við gleraugu einstaklinga sem taki mið af þeim hugmyndum sem hér hafa verið raktar.

Því er við að bæta að ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir þann áhuga og þá vinnu sem fyrirspyrjandi hefur lagt í þetta mál. Mér er kunnugt um það. Ég vona að þetta hafi svarað fyrirspurn hv. fyrirspyrjanda um stöðu málsins.