132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Gleraugnakostnaður barna.

95. mál
[13:15]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna þeirri yfirlýsingu ráðherra sem hér kom í dag. Hér er vissulega verið að stíga mikilvæg skref til að jafnræði sé í þátttöku hins opinbera á kostnaði vegna heyrnarskerðingar annars vegar og sjónskerðingar hins vegar sem ég tel að muni skipta miklu fyrir fjölda heimila í landinu. Benda má á að það er þung byrði hjá barnmörgum fjölskyldum ef kaupa þarf tvenn eða þrenn gleraugu á hverju ári, en samkvæmt upplýsingum frá Augnlæknafélagi Íslands er sjónlag ættarfylgja og því algengt að systkin noti bæði eða öll gleraugu. Þetta mun örugglega létta mjög hjá mörgum heimilum, eins og ég nefndi, og því ber að fagna.

Það var erfitt að meðtaka allt sem fram kom hjá ráðherra um hvernig ætti að framfylgja þessu, en ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi einhverjar tölur um þann fjölda sem muni njóta góðs af þeirri breytingu sem ráðherra beitir sér hér fyrir og mun taka gildi um næstkomandi áramót. Ég nefndi í máli mínu áðan að miðað við þá aðstoð sem nú er vegna gleraugnanotenda hjá börnum að það eru 1.600–1.700 börn af 12 þús. sem þurfa á gleraugum að halda sem fá nú einhverja aðstoð. Mér liggur því forvitni á að vita hvað það er mikill fjöldi sem mun bætast við sem mun fá aðstoð, sérstaklega er ég að tala um börn undir 18 ára með þeirri breytingu sem hæstv. ráðherra beitir sér fyrir.

Ég man að í því frumvarpi sem ég hef ítrekað flutt þar sem verið var að leita jafnræðis á milli heyrnarskerðingar hjá börnum annars vegar og sjónskerðingar hins vegar var áætlað að kostnaðurinn yrði þá 55 millj., sem ég geri ráð fyrir að séu orðnar 60–70 millj. núna. Ég hef áhuga á að vita hvort hæstv. ráðherra gæti upplýst okkur við þessa umræðu hvað það eru mörg börn sem ekki hafa notið framlags eða styrks vegna gleraugnakostnaðar sem muni fá aðstoð núna eftir þessa breytingu hjá hæstv. ráðherra sem tekur gildi um næstkomandi áramót.