132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Íslenskir friðargæsluliðar eða hermenn í Afganistan.

161. mál
[13:50]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hv. þingmaður spurði hvort friðargæslan í Afganistan af okkar hálfu væri vísir að her. Af svari hæstv. ráðherra er engan veginn hægt að ráða annað en að svo sé, þó hann hafi að vísu gefið neitandi svar. Þarna er um að ræða menn í einkennisbúningum sem ganga undir vopnum, eru þjálfaðir af erlendum her, eru innan erlends herskipulags, starfa með erlendum hermönnum á svæðum þar sem ófriður er. Það er með engu móti hægt að komast að annarri niðurstöðu en þeirri að þarna sé um að ræða að minnsta kosti vísi að her.

Herra forseti. Það verður að vera „system i galskapet“ og þess vegna verður með einhverju móti að koma einhverjum lagalegum strúktúr utan um friðargæslu af okkar hálfu þar sem skýrt kemur fram hvað má og hvað má ekki. Eitt af því sem ekki má er að við (Forseti hringir.) starfrækjum eitthvað sem hægt er að skilgreina sem her erlendis eða heima, herra forseti.