132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Kjarabætur til vistfólks á dvalar- og hjúkrunarheimilum.

159. mál
[13:59]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég byrja þar sem hv. þingmaður endaði varðandi þá eingreiðslu sem var spurt um í fyrirspurnatíma það sem ég sagði að við afgreiddum með sanngjörnum hætti. Ég skrifaði undir reglugerð í gær um eingreiðsluna þar sem hún er í samræmi við það samkomulag sem gert hefur verið og í samræmi við það sem aðrir fá og þeir sem eru inni á stofnunum munu njóta þessarar eingreiðslu. En spurt er hvort áform séu um að bæta kjör þeirra sem dvelja á dvalar- og hjúkrunarstofnunum. Spurningin snýr að öldruðum sem vistast á stofnunum og þá væntanlega bæði bótagreiðslum og þjónustu við aldraða.

Hinn 25. september 2002 skipaði ríkisstjórnin starfshóp sem ætlað var að verða farvegur formlegs samráðs stjórnvalda og Landssambands eldri borgara um breytingar á almannatryggingalögum og endurskoðun á lífeyrisgreiðslum er komi til framkvæmda á næstu árum. Þá var starfshópnum einnig ætlað að fjalla um uppbyggingu hjúkrunarheimila og þjónustu við aldraða með það að markmiði að stytta biðlista og bæta þjónustu.

Starfshópurinn var skipaður fulltrúum fjögurra ráðuneyta og Landssambands eldri borgara og skilaði tillögum með skýrslu þann 19. nóvember 2002. Ríkisstjórnin samþykkti að beita sér fyrir því að tillögurnar næðu fram að ganga og var áréttað að aðilar vildu áframhaldandi samráð um þau viðfangsefni sem tillögurnar taka til og annað sem upp kann að vera tekið í samráðsnefnd aðila.

Í framhaldi af framangreindu skipaði ég 31. maí 2005, samráðsnefnd sem hefur það hlutverk að fara yfir efndir á samkomulaginu frá 2002 og jafnframt á nefndin að meta stöðu aldraðra eins og hún er nú. Nefndin hefur nú skilað áliti um efndir frá samkomulaginu 2002 og það hefur verið efnt að undanteknu einu atriði sem út af stendur, sem fjallar um sveigjanleg starfslok. Í framhaldi af þessu munum við nú halda fundi í samráðsnefnd ríkisstjórnarinnar og aldraðra og halda áfram að fara yfir málefni aldraðra í samstarfshópnum og ákvarðanir sem tengjast eldri borgurum og þær munu taka mið af framangreindu nefndarstarfi, áætlunum og skýrslu stýrihóps um stefnumótun. Þetta á einnig við um aldraða sem dvelja á dvalar- og hjúkrunarheimilum og við munum fjalla um kjör þeirra á sama vettvangi. Og ég vona að við gerum það núna á næstu dögum, en næstu fundir eru áætlaðir með öldruðum núna á allra næstu dögum. Þessi mál eru þar undir og verða til umfjöllunar á þessum vettvangi.