132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Kjarabætur til vistfólks á dvalar- og hjúkrunarheimilum.

159. mál
[14:10]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem er þörf og þyrfti auðvitað að vera mun lengri um þennan hóp.

Ég vil byrja á því að fagna því sem hæstv. ráðherra sagði í svari til mín að í gær hafi hann undirritað samkomulag um að þessi hópur lífeyrisþega, sem eru 1.703 aldraðir og 230 öryrkjar, muni ekki fara í jólaköttinn að þessu sinni heldur fái þær 26 þús. kr. sem aðrir fá 1. desember. Ég fagna því þar sem þetta er hópur sem fær yfirleitt ekki uppbætur og hann fær ekki eingreiðslur. Hann þarf að lifa af þessum 21.900 kr. á mánuði, þ.e. fyrir helstu persónulegum nauðsynjum. Það er hins vegar tómt bull að það sé 1% lífeyrisþega. Í ræðu sinni talaði hv. þm. Jónína Bjartmarz um lífeyrisþega sem eru á strípuðum bótum og eru úti í samfélaginu en ekki inni á stofnunum, sem er fólkið sem við erum að tala um hér. Það er fólk sem á ekki peninga til að kaupa sér föt til skiptanna. Ég hef margar staðfestingar fyrir því. Þetta fólk fær heldur ekki stuðning frá félagsþjónustu sveitarfélaganna. Þarna verður að taka á og það mynduglega, hæstv. ráðherra. Vasapeningakerfið er auðvitað gamaldags kerfi. Við hljótum að geta tekið upp annað kerfi sem okkur er sæmandi því að slíkt ölmusukerfi er niðurlægjandi. Það er alveg rétt sem margir aldraðir segja í greinum sem þeir hafa verið að skrifa um það.

Hvað það varðar að verið sé að standa við samkomulag við aldraða þá hef ég hef ekki tíma til að fara yfir það en ég vil t.d. spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi staðið við það atriði sem eru skammtímainnlagnir fyrir heilabilaða þar sem átti að fjölga þeim. Mér skilst eftir þeim upplýsingum sem ég hef að þeim hafi fækkað frekar en fjölgað. Ég hvet hæstv. ráðherra til að skoða það en fagna því að hann ætlar ekki að láta þann hóp lífeyrisþega sem er á stofnunum og er með vasapeninga verða út undan þegar eingreiðslan kemur til greiðslu fyrir jólin.