132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Kynbundið ofbeldi.

195. mál
[15:21]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda ágæta fyrirspurn og hæstv. ráðherra ágætt svar hans líka. Hann sagði með réttu að svar hans lyti aðallega að þessari aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar og því sem heyrði undir málefnasvið hans. En ég vildi halda til haga þætti heilbrigðisráðuneytisins í þessum málum vegna þess að heilbrigðisráðherra hefði falið verkefnisstjórn um heilsufar kvenna að huga sérstaklega að leiðum til að auka fræðslu heilbrigðisstétta á þessu sviði, skoða leiðir til að bæta skráningu upplýsinga um heimilisofbeldi í sjúkraskrár og kanna hvort gerð klínískra leiðbeininga sé æskileg leið til að styðja fagstéttirnar. Þetta starf verður unnið, vænti ég, í góðri samvinnu við verkefnisstjórnina um aðgerðaáætlunina sem ráðherra gerði grein fyrir. Meginniðurstaða á fundum með fyrirsvarsmönnum heilbrigðisvísindadeildar innan Háskóla Íslands er sú að brýn og mikil þörf sé á sí- og endurmenntun heilbrigðisstétta á þessu sviði. Ef hlutirnir eru ekki greindir hjá heilbrigðisstéttunum kemur heldur aldrei til neinna úrræða, ákæra eða dóma.