132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[11:23]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir það mjög mikilvægt að formaður fjárlaganefndar segir að fullur vilji sé til þess að ráðast í þær framkvæmdir sem þarf hið fyrsta. Ég vek eftirtekt á því að hér fyrir þinginu liggur tillaga um 90 millj. kr. framlag til þess að þetta verði hægt. Ég mun í umræðunni síðar í dag gera grein fyrir þessum vanda og reyndar vil ég að það komi líka fram að ég hef óskað eftir umræðu utan dagskrár við hæstv. heilbrigðisráðherra um þetta mál.

En mér finnst það mjög mikilvægt að hjá hv. þm. Magnúsi Stefánssyni kemur greinilega fram sterkur vilji til þess að leysa málið. Mér finnst að það hljóti að vera hægt að finna svigrúm hjá ríkinu til þess að láta einhverja tugi milljóna í þetta núna til að hægt sé að ráðast í framkvæmd fyrsta áfanga. Ég er þá að hugsa um einhvers konar framlag frá ríkinu í gegnum fjárlaganefnd, hugsanlega einhverja sjóði til bygginga innan Landspítalans. Ég held að þetta sé mál sem ekki getur beðið og ég bið hv. þingmenn um að taka undir með okkur sem erum að berjast í þessu máli og ég veit að það er ríkur skilningur á því.