132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[15:36]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar ég tala um laun þá er ég að tala um launin í heild sinni. Ef við lítum á þáttatekjurnar á Íslandi, hvað kemur þá í ljós? Laun á Íslandi sem hlutfall af þáttatekjunum eru 70%, sem er hærra hlutfall en í nokkru öðru landi OECD, 70% eru laun. Næsta land fyrir neðan okkur er Svíþjóð með 64% laun. Ég vara við þessari launaþróun vegna þess að hún getur ekki annað en skaðað samfélagið í framtíðinni. Við göngum of langt í að hækka launin okkar, ekki Pétur eða Páll heldur við í heild sem þjóð. Við með svona hátt hlutfall launa erum að skemma fyrir framtíðinni. 70% laun geta ekki staðist í nútímasamfélagi. Þau verður að lækka til að tryggja framtíð þjóðarinnar.