132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[16:04]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það er því miður staðreynd að það er orðin miklu meiri misskipting eftir að Framsóknarflokkurinn komst til valda. Það er einnig staðreynd að tekjur þriðjungs allra eldri borgara landsins eru undir 110 þús. kr. á mánuði. Þetta er sá kaldi raunveruleiki sem blasir við. Mér finnst mjög undarlegt að hv. þingmaður skuli koma hér og nefna samninginn sem undirritaður var í Þjóðmenningarhúsinu, þar sem handsalaður var samningur við unga öryrkja upp á 1.500 millj. og hann var svikinn. (Gripið fram í.) Hann var svikinn um 500 millj. Mér finnst það mjög mikil ósvífni að hann skuli í rauninni hætta sér upp í þennan ræðustól og minnast á þennan samning sem er í rauninni svik. Þetta eru ekki einungis mín orð, þetta eru orð þeirra sem gerðu samninginn við framsóknarmenn og ríkisstjórnina alla. Að vísu, til að bera blak af framsóknarmönnum, stóðu þeir ekki einir í þessum svikum heldur voru sjálfstæðismenn meðsekir þeim. Þetta er því miður staðreynd.

Ég heyrði á máli hv. þingmanns að hann var mjög ánægður með fiskveiðistjórnarkerfið og taldi það vera grundvöllinn að farsæld þjóðarinnar. Mig langar þess vegna að spyrja hvort hv. þingmaður hafi sett sig í spor ungra manna sem vilja hefja útgerð, t.d. á Siglufirði, í heimabæ hans. Ég hef gert það og séð kjör þeirra og hvað þeir þurfa að búa við. Það er þannig að helmingurinn af tekjum þeirra sem ætla að hefja útgerð fer beint í kvótaleigu. Þetta er það sem Framsóknarflokkurinn hefur búið til með Sjálfstæðisflokknum. Mér finnst þetta ömurlegt (Forseti hringir.) og í rauninni undarlegt að hv. þingmaður skuli koma hér og hreykja sér af þessum vondu verkum sínum.