132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[20:28]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. 1. þm. Suðurk., Margrét Frímannsdóttir, var með margar og merkilegar fyrirspurnir og ég þakka henni fyrir þær.

Ég greindi einmitt áðan frá áformum í uppbyggingu fangelsismála og ég tek undir með hv. þingmanni að það er mjög brýnt að því verkefni verði haldið áfram. Við ættum vonandi að sjá það í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2007. Mikil og góð skoðun hefur farið fram af hálfu fangelsisyfirvalda á því hvernig byggja eigi upp fangelsi. Við fengum fangelsismálastjóra á fund til okkar í fjárlaganefnd. Það var afskaplega fróðlegt að hlusta á hann fara yfir þau mál. Það kom mjög vel fram hjá honum að bæði fangelsið við Skólavörðustíg og kvennafangelsið væru í alveg ómögulegri stöðu. Það væri óskandi að það gengi eftir að því yrði fundinn staður í framhaldi af þessu. Eins er með fangelsið á Litla-Hrauni sem ég tel að mikil þörf sé á að lagfæra.

Hvað varðar símenntunarverkefnin er verið að bæta 100 millj. kr. í þann pott. Ætlunin er, a.m.k. höfum við gert ráð fyrir því í fjárlaganefnd, að það fé fari til símenntunarstöðvanna með handleiðslu frá menntamálaráðuneytinu og Samtökum atvinnulífsins hvernig vinna eigi að því verkefni.

Hvað varðar háskólamenntunina tel ég afskaplega mikilvægt að háskólamenntun sé sem víðast. Mikið hefur verið um fjarnám í háskólanámi og í hefur Háskólinn á Akureyri verið þar í forustu.