132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[11:36]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Þessi tillaga er um að lækka fjárveitingar til byggðaáætlunar og þó það sé ekki nema um 12,5 millj. og af hvaða ástæðum sem það nú er þá er ekki hægt að segja annað en hún sé ákaflega táknræn fyrir það sem ég held að sé réttilega kallað niðurlæging og aumingjaskapur Framsóknarflokksins í byggðamálum. Það er með miklum endemum hvernig er verið að afgreiða þau mál hér á þessu haustmissiri þannig að Byggðastofnun er óstarfhæf og lokuð akkúrat um þessar mundir og það örlar ekki á aðgerðum til að koma henni í gang á nýjan leik, til að hægt verði að opna hana á nýjan leik. Innan örfárra vikna verður engin byggðaáætlun í gildi á Íslandi ef svo heldur sem horfir því ekkert bólar á neinu slíku plaggi frá hæstv. ráðherra byggðamála til að koma í stað þeirrar sem rennur út um áramótin.

Svona er nú staðan á þessu. Því er táknrænt að ofan í kaupið leggur svo ríkisstjórnin til beinlínis lækkun á fjárframlögum (Forseti hringir.) til gildandi byggðaáætlunar.