132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[11:41]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði svo sem ekki að koma hér upp. En ég gat ekki orða bundist þegar hæstv. ráðherra sagði að ástand mála á landsbyggðinni væri betra en um langan tíma. Eitthvað á þá leið féllu orð hæstv. ráðherra. (Gripið fram í.)

Þorskstofninn er að hrynja segir Hafrannsóknastofnun. (Gripið fram í.) Karfinn er farinn. Rækjan er farin. Kolmunninn er týndur. Loðnan er týnd. Gengismálin eru að buga landsbyggðina og fyrirtæki á (Gripið fram í.) landsbyggðinni. Þetta er staðan í dag. Fyrirtækjum er lokað nánast upp á hvern einasta dag. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Iðnaðarráðherra ...) Forsvarsmenn fyrirtækja koma til okkar þingmanna landsbyggðarinnar (Gripið fram í: Og reikna.) og segja: „Annaðhvort lokum við eða við förum í gjaldþrot.“ Hverjir standa fyrir þessu? Það eru ráðherrarnir sem sitja hér á þessum bekkjum. Þetta er allur árangurinn. Þess vegna er svo grátlegt, þó þetta sé lítill niðurskurður, að þurfa að horfa upp á þetta gerast, horfa upp á þetta aðgerðarleysi, þetta dugleysi, þetta ráðleysi og þennan aumingjaskap. Ég segi nei.

(Forseti (SP): Forseti beinir því til hv. þingmanna að gera grein fyrir atkvæði sínu en ekki vera að svara öðrum hv. þingmönnum.)