132. löggjafarþing — 31. fundur,  28. nóv. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[15:51]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það eru út af fyrir sig tíðindi ef formaður félagsmálanefndar segir það bara svart á hvítu, blákalt, áður en hún fær málið til umfjöllunar, að því verði ekki breytt. (Gripið fram í.) Má þá ekki alveg eins aflýsa fundum félagsmálanefndar og stimpla þetta bara? Eigum við ekki bara, frú forseti, að taka upp þann sið að stofnanir úti í bæ, jafnvel þó þær séu stórar og mikilvægar eins og aðilar vinnumarkaðarins, taki að sér þingstörfin og ákveði hvernig lögin eigi að vera? Hér kemur formaður fagnefndar í þinginu og segir raunverulega að framselja eigi það vald sem stjórnarskráin felur okkur. Ég get ekki fallist á það.s

Ég get líka upplýst hv. þingmann um það að þegar hún fer að skoða þetta frumvarp mun hún finna þar ákvæði sem hefta úr hófi fram starfsemi t.d. innlendra starfsmannaleigna sem þegar eru á markaði. Ég held t.d. að þar séu ákvæði sem þarf að hefla svolítið og hugsanlega hefur það ekki verið nægjanlega skoðað. Ég dreg þá ályktun af ræðu hæstv. félagsmálaráðherra nú og þegar við ræddum þetta síðast fyrir bara nokkrum vikum að töluvert mikill hraði, sem ég þakka í sjálfu sér fyrir, hafi verið á afgreiðslu málsins. En ég er þeirrar skoðunar að þarna séu ákveðin ákvæði sem þarf að hefla. Ég drap á þau ákvæði. Ég tel að hv. félagsmálanefnd verði að skoða þetta mál eins og hvert annað þingmál með sínum faglegum gleraugum. Er einhver galli á því? Er hægt að bæta það? Þó Framsóknarflokkurinn sé hrifinn af Samtökum atvinnurekenda þá eru jafnvel þau mannleg. Þau eru breysk og jafnvel þau gera mistök. Það er hlutverk fagnefndanna, eins og hv. formaður félagsmálanefndar veit, að skoða mál og athuga hvort hægt sé að bæta þau, koma í veg fyrir mistök, (Forseti hringir.) jafnvel finna einfaldari leiðir.