132. löggjafarþing — 31. fundur,  28. nóv. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[18:02]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þá góðu umræðu sem fram hefur farið hér í sölum Alþingis í dag um þetta mikilvæga mál. Eins og við mátti búast eru ekki allir á eitt sáttir nákvæmlega um efnisinnihaldið þótt ráða megi af umræðunni að þingheimur allur án undantekninga fagni framlagningu frumvarpsins og þingmenn hafi lýst sig reiðubúna til að gera það sem í þeirra valdi stendur til að klára megi afgreiðslu málsins áður en við höldum til jólahlés. Það dregur ekki úr skyldum okkar á þann veg að sjá til þess að þetta mál verði sem best úr garði gert, að sjálfsögðu ekki. Nokkrar spurningar hafa verið bornar fram við þessa umræðu sem ég vil gera mitt besta til þess að svara.

Í fyrsta lagi spurði hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hvort ekki væri nauðsynlegt að kalla eftir upplýsingum um fjölda starfsmannaleigna í landinu og starfsmanna á þeirra vegum. Til þess er leikurinn m.a. gerður með framlagningu frumvarpsins og vonandi samþykkt þess þannig að lögum verði. Í 2. og. 4. gr. frumvarpsins er því lýst með hvaða hætti ætlunin er einmitt að ná utan um það hvaða fyrirtæki hér er um ræða, hver þau eru, hvar þau starfa og hverjir starfsmenn þeirra eru. En eitt af því sem valdið hefur aðilum á vinnumarkaði áhyggjum og okkur sem stjórnvaldi er einmitt að þær upplýsingar hafa ekki legið á lausu.

Ellefta grein frumvarpsins hefur verið gerð að umtalsefni, hæstv. forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerði það meðal annarra hygg ég. Auðvitað er stöðvun á rekstri fyrirtækis afdrifarík aðgerð. Til hennar getur engu að síðu komið samkvæmt 11. gr. frumvarpsins. Hins vegar er það ekkert einsdæmi að frestir séu gefnir til úrbóta, jafnvel þótt nokkuð ljóst virðist að um lögbrot sé að ræða. Þetta er þekkt m.a. við framgöngu vinnueftirlits, heilbrigðiseftirlits og fleiri aðila.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson og hv. þm. Ásta Möller lögðu m.a. út af 1. gr. frumvarpsins og þeirrar hefðar sem vissulega hefur skapast á íslenskum vinnumarkaði, að starfsmenn eins fyrirtækis ynnu tímabundið fyrir annað. Þetta er eitt þeirra atriða sem komið hafa ítrekað til umræðu við 1. umr. málsins og hv. félagsmálanefnd hlýtur að taka til athugunar. Ég vil þó ítreka það, hæstv. forseti, að þessum lögum er ætlað að taka til starfsemi starfsmannaleigna, þ.e. fyrirtækja sem stunda gagngert leigu á starfsfólki til annarra. Svo ég vitni, með leyfi forseta, til greinargerðar Rannsóknarseturs vinnuréttar og jafnréttismála við Viðskiptaháskólann á Bifröst sem talað hefur verið um og vitnað til hér í dag. Þar segir á bls. 4:

,,Staða leigustarfsmanna er að mörgu leyti óhefðbundin og hafa tvö atriði sérstaka þýðingu í því sambandi. Annars vegar að starfsmaðurinn starfar í raun fyrir tvo atvinnurekendur á meðan hann er í útleigu. Hins vegar að starfsmaðurinn er gjarnan stuttan tíma í hverju notendafyrirtæki fyrir sig og flyst gjarnan oft á milli vinnustaða.“

Þetta skýrir málið að einhverju leyti en örugglega ekki öllu, enda er hér um mál að ræða sem verið er að takast á við víða um heim. Það leiðir okkur að spurningu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar o.fl. þar sem hv. þingmenn veltu fyrir sér hvort við Íslendingar gætum einfaldlega bannað starfsemi starfsmannaleigna. Ég vil aftur fá að vitna í fyrrnefnda greinargerð rannsóknarsetursins þar sem segir á bls. 5, með leyfi forseta, og fjallað er um útleigustarfsemina:

,,Á síðustu fjórum áratugum hefur þróunin verið sú að starfsemi starfsmannaleigna hefur verið viðurkennd í auknum mæli. Í ríkjum Evrópu var útleigustarfsemi víða bönnuð lengi vel ásamt starfsemi einkarekinna vinnumiðlana, enda litið svo á að vinnumiðlun ætti aðeins að vera í höndum hins opinbera. Var afstaða ILO sú að útleigustarfsemi bryti í bága við samþykkt ILO nr. 96 um vinnumiðlanir reknar í hagnaðarskyni. Þessi afstaða breyttist þó samhliða breytingum á vinnumarkaði þar sem aukin þörf virtist vera fyrir sveigjanleika og ný ráðningarform.

Í lok sjöunda áratugarins mótaðist kenningin um hið þríliða samband sem útleigustarfsemi felur í sér, þ.e. að starfsmannaleigan sé vinnuveitandi leigustarfsmannsins en leigi hann til notendafyrirtækis og framselji þar með hluta stjórnunarvaldsins til þess.

Dómar Evrópudómstólsins á tíunda áratugnum urðu til þess að mörg Evrópuríki endurskoðuðu löggjöf sína og heimiluðu útleigustarfsemi. Á tíunda áratugnum breyttist síðan afstaðan jafnframt á vettvangi ILO, samanber samþykkt ILO nr. 181/1997.“

Útleigustarfsemi af því tagi sem við ræðum hér er leyfð í öllum ríkjum Evrópusambandsins og dómaframkvæmd á Evrópuvettvangi er með þeim hætti að ekki er hægt að ímynda sér að mögulegt væri fyrir okkur að banna slíkt hér. Raunar kemur fram í Evrópurétti réttur til þess að veita þjónustuviðskipti. Bann við slíku, hæstv. forseti, kemur því ekki til greina í mínum huga í ljósi alþjóðlegra skuldbindinga okkar.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir o.fl. nefndu ábyrgð notendafyrirtækjanna á því að starfsmenn starfsmannaleigna fái greitt samkvæmt kjarasamningum. Það kann vel að vera í hugum einhverra. Sú afstaða hefur m.a. komið fram, eins og ég tiltók fyrr í dag, í máli sumra forsvarsmanna verkalýðshreyfingar, að í einhverjum tilvikum sé réttlætanlegt að notendafyrirtæki beri sameiginlega ábyrgð með starfsmannaleigunni á kröfum starfsmanna hennar um leiðréttingu á kjörum sínum. Eflaust má finna og tína til dæmi um slíkt. Mér finnst hins vegar nokkuð langt gengið ef þjónustukaupi þyrfti að standa frammi fyrir því um leið og hann gerir þjónustusamning við starfsmannaleigu að vera gerður sameiginlega ábyrgur fyrir skyldum þjónustuveitandans gagnvart starfsmönnum hans að því er starfskjör varðar og ábyrgðin þar með orðin kannski að einhverju leyti tvöföld af hans hálfu. Slíkar ábyrgðir hafa ekki tíðkast á innlendum vinnumarkaði og ég tel ekki ástæðu til að fara slíka leið þegar líkur eru á að aðrar vægari geti dugað til, leiðir sem samræmast betur því sem við eigum að venjast, þ.e. að hver vinnuveitandi beri ábyrgð gagnvart starfsfólki sínu. Skoðun mín er sú að þær leiðir sem lagðar eru til í frumvarpinu dugi vel til þess að tryggja að starfsmannaleigur komist ekki upp með að brjóta íslensk lög og kjarasamninga gagnvart starfsfólki sínu.

Við megum heldur ekki, hæstv. forseti, að mínu viti ganga út frá því sem vísu að allar starfsmannaleigur sem starfa hér á landi eða koma til með að starfa hér séu glæpafyrirtæki og reisa starfsemi þeirra svo háar girðingar að þeim sé ekki ætlað að starfa hér. Í sumum tilvikum getur starfsemi þeirra eflaust átt rétt á sér, en þegar sveigjanleiki í ráðningum er eins og hann er hér á landi eru tilvikin væntanlega tiltölulega fá þar sem þeirra þarf raunverulega við. Ég vil þó í þessu sambandi ítreka það sem ég sagði í framsöguræðu minni áðan að fyrirtækin í landinu bera hér vissulega samfélagslega ábyrgð. Þeim ber öllum að virða þær leikreglur sem gilda á íslenskum vinnumarkaði og þeim ber ekkert síður að taka virkan þátt í því forvarnastarfi sem þarf til svo halda megi utan um vinnumarkaðskerfi okkar og þar með stuðla að því að leikreglur séu virtar. Þau gera það að sjálfsögðu ekki með því að eiga viðskipti við fyrirtæki sem vísvitandi brjóta lög og kjarasamninga. Það á ekkert okkar að líða.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir nefndi sömuleiðis niðurfellingu aðlögunartakmarkana. Varðandi það mál vil ég segja að ég hef falið sérstakri samráðsnefnd, sem er m.a. skipuð fulltrúum aðila vinnumarkaðarins, að fjalla um hvað skynsamlegt sé að gera eftir 1. maí á næsta ári varðandi átta af tíu nýjum aðildarríkjum að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Aðilar eru sammála um að fara þurfi yfir þessa stöðu með yfirveguðum hætti og ég vænti þess að niðurstöður liggi fyrir fljótlega upp úr áramótum. Ljóst er að við verðum m.a. að líta til ákvarðana annarra ríkja, ekki síst nágrannalanda okkar. Það má geta þess að skiptar skoðanir hafa verið um þetta mál á meðal Evrópusamtaka aðila vinnumarkaðarins en vænta má niðurstöðu Evrópusamtaka launþegahreyfinga um þetta mál í desember. Á vettvangi Evrópusambandsins hefur komið fram sú ósk að afstaða aðildarríkja EES til frekari aðlögunarreglna verði gerð skýr sem fyrst og það rekur sömuleiðis á eftir okkur í þessum efnum.

Í umfjöllun í vinnuhópi embættismanna á vegum Evrópusambandsins hefur komið í ljós að vinnumarkaðir aðildarríkja sem ekki takmörkuðu frjálst flæði launafólks frá átta af hinum tíu nýju ríkjum hafi ekki orðið fyrir skaðlegum áhrifum og breytingin hafi gengið yfir án mikilla vandkvæða. Aðilar vinnumarkaðarins á Evrópuvettvangi hafa þó lýst yfir nokkrum áhyggjum og kvarta raunar sumir yfir því að hafa ekki verið með í ráðum þegar ríkisstjórnir tóku ákvarðanir um framkvæmd mála. Hér verður hins vegar lögð mikil áhersla á að aðilar vinnumarkaðarins og utanríkisráðuneytið komi að ákvörðunartöku um framhaldið rétt eins og gert var á sínum tíma, hæstv. forseti, þegar ákvörðun var tekin um að leggja til við Alþingi að við beittum þeim aðlögunartakmörkunum sem renna sitt skeið 1. maí á næsta ári.

Þær takmarkanir sem við gripum til fólust í því að íslensk fyrirtæki sem þyrftu á erlendu vinnuafli að halda til að sinna hefðbundinni launavinnu, sem ekki tækist að manna með innlendum starfskrafti, þyrftu áfram að sækja um atvinnuleyfi líkt og gildir um ríkisborgara utan Evrópska efnahagssvæðisins, eða þriðju ríkisborgara eins og það er nefnt. Fyrst í stað gekk þetta vel og fyrirtækin héldu sig við hið þekkta form við að fá til sín erlendan starfskraft, stjórnvöld höfðu góðar upplýsingar um fjölda og kjör þeirra sem hingað komu, en undanfarið hefur í auknum mæli borið á því að íslensk fyrirtæki væru að fá til sín starfsmenn með svonefndum þjónustusamningum, m.a. í gegnum erlendar starfsmannaleigur, sem er umfjöllunarefni hér.

Rök atvinnulífsins fyrir að færa ráðningar á erlendu vinnuafli undir hatt þjónustusamninga á meðan á aðgangstakmörkunum stendur hafa fyrst og fremst verið þau að of tímafrekt sé að sækja um dvalar- og atvinnuleyfi með þeim hætti sem lög okkar gera ráð fyrir. Við því hef ég brugðist og í samráði við dómsmálaráðherra breytt verklagi við útgáfu atvinnu- og dvalarleyfa svo nú tekur einungis um tvær vikur að fá afgreitt slíkt atvinnuleyfi fyrir vinnuafl frá nýjum aðildarlöndum Evrópska efnahagssvæðisins. Þær breytingar hafa þegar haft þau áhrif að dregið hefur úr aðsókn fyrirtækjanna í þjónustu starfsmannaleigna eftir því sem þeir segja sem best til þekkja.

Ég vil ítreka að frumvarpið sem við ræðum hér breytir að sjálfsögðu engu um það að íslenskir kjarasamningar gilda áfram um kaup og kjör starfsmanna starfsmannaleigna sem veita þjónustu sína hér á landi. Það er alveg skýrt. Þá er bæði átt við innlendar og erlendar starfsmannaleigur. Þær bera einnig skyldur samkvæmt öðrum lögum og kemur skattalöggjöfin þar fyrst upp í hugann. Frumvarp þetta breytir þar engu um, heldur er einungis ætlað að undirstrika þær staðreyndir.

Vonir mínar, eins og fram hefur komið, standa til að frumvarp þetta verði ekki til þess að breytingar verði á skipulagi vinnumarkaðskerfisins. Það er nú eins og áður hlutverk aðila vinnumarkaðarins að útkljá mál sín sjálfir án atbeina ríkisvaldsins. Mál sem kunna að rísa í tengslum við kjarasamninga. Þannig vil ég sjá það áfram enda þótt Vinnumálastofnun sé falið ákveðið eftirlitshlutverk með efni þessara laga. Í því samhengi minni ég enn og aftur á þau lög sem samþykkt voru á sama tíma í fyrra þar sem samningi aðila vinnumarkaðarins um útlendinga á innlendum vinnumarkaði var gefið almennt gildi. Þar komu aðilarnir sér saman um farveg fyrir ágreining sem kann að rísa vegna starfskjara erlendra starfsmanna á íslenskum vinnumarkaði. Sá samningur er virkur og hafa mál komið til kasta nefndarinnar er starfar á grundvelli hans nú þegar.

Hæstv. forseti. Að lokum vil ég nefna að það hefur þótt til fyrirmyndar hvernig íslenski vinnumarkaðurinn er skipulagður þar sem ákveðinn sveigjanleiki hefur verið ráðandi. Framkvæmd kjarasamninga er á ábyrgð aðila vinnumarkaðarins og ágreiningsefni eru leyst með samningum síður en á grundvelli fyrirmæla í lögum eða reglugerðum. Því fyrirkomulagi tel ég mikilvægt að verði haldið. Ég tel farsælast að jafnan sé það þrautreynt af hálfu samningsaðila á vinnumarkaði að ná samkomulagi áður en skipulagsmál eða ágreiningur á vinnumarkaði er leystur með lagasetningu á Alþingi. En til þess að fyrirkomulagið reynist vel verður að höfða til samfélagslegrar ábyrgðar þeirra sem um þessi mál fjalla eins og ég hef ítrekað sagt.