132. löggjafarþing — 31. fundur,  28. nóv. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[18:20]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra segir að þau fyrirtæki sem brjóta á starfsmönnum séu fá. Það nægir auðvitað til þess ef einhver fyrirtæki brjóta á starfsmönnum að þá sé eitthvert ákvæði um notendaábyrgð. Ekki er þar með sagt að verið sé að tala um öll fyrirtæki, en ef einhver fyrirtæki eru uppvís að slíku verða einhver úrræði að vera til staðar í þessari löggjöf varðandi þá ábyrgð sem notendafyrirtækin bera og þar erum við greinilega ósammála. Ég býst við að við í hv. félagsmálanefnd þurfum að fara mjög vel yfir vinnuveitendaábyrgðina og gera breytingar ef við teljum slíkt nauðsynlegt.

Ég vil þá spyrja, af því að hæstv. ráðherra svaraði þessu ekki, að þar sem hann telur alveg skýrt að starfsmannaleigurnar eigi að bera slíka vinnuveitendaábyrgð, hvort hann telji þá ekki þeim mun nauðsynlegra úr því að það eru starfsmannaleigurnar að þá liggi fyrir að upplýsingaskylda, t.d. til stéttarfélaga, sé skýrari, bæði frá notendafyrirtækjunum og starfsmannaleigunum, um kjör þessa erlenda vinnuafls til þess að hægt sé að fylgjast með því að lögin séu uppfyllt og, eins og ég nefndi áðan, að trúnaðarmenn geti sannreynt upplýsingar um launagreiðslur. Mér finnst þetta óskýrt og við munum örugglega fara yfir þetta í hv. félagsmálanefnd. En ég vil heyra skoðun ráðherra á því hér í lokin hvort hann telji nógu skýrt tekið á upplýsingaskyldunni.